Monday, June 12, 2017

Vinátta, nýfrjálshyggja og færni fyrir framtíðina



Úr improvinu í eldinn eins og þeir segja....

Hér að ofan er fyrsti hluti af fjórum af mjög áhugaverðum fyrirlestri Todd May um arnarkisma og heimspeki. Þetta er allt mjög spennandi og intresant en kannski ekki beint léttmeti. Ákveðin kjarni í pælingu hans er að vinátta sé forsenda anarkisma, og að það að ástunda ("sanna") vináttu sé í rauninni í andstöðu við kerfið og nýfrjálshyggjuna..... Hér ætla ég ekki að útskýra þetta í smáatriðum en kynna nokkur hugtök sem liggja þarna að baki. 

Það er flestum ljóst að við búum í neyslusamfélagi. Það þurfti ekki Costco til. Auglýsingaflóðið brýtur á okkur eins og tsunami, við tökum á móti efni úr allskonar efnisveitum, bryðjum skyndimat og svolgrum í okkur ískalt ölið í alsherjar neysluvímu. (e. the consumer) 

Til þess að neysla geti átt sér stað þá þarf framleiðsla að eiga sér stað. Það undarlega er samt að núna er framleiðandinn úr augsýn (að verulegu leyti, ýmist í Kína eða á Selfossi). (e. the producer) 

Auðurinn í heimi nýfrjálshyggjunnar er nefnilega ekki skapaður af eða fyrir framleiðendur, heldur af frumkvöðlum - þessum óumdeildu og stórbrotnu Jobsum samtímans. Einkenni frumkvöðulsins er að sjá fjárhagsleg tækifæri alstaðar, og líta á lífið sem einn alsherjar markað til að græða á.  (e. entrepreneur)

Nýfrjálshyggjan mótar okkur annars vegar sem neytendur og hins vegar sem frumkvöðla. Tími þar sem við erum ekki að neyta (grilla) eða frumkvöðlast (græða) er tími sem er illa varið - en þarna væri einmitt tíminn sem við verjum t.d. í að vera vinir hvers annars, að rækta djúpstæð sambönd.... Hér er að mörgu að hyggja en þetta skýrir mjög vel hvers vegna stytt vinnuvika er "efnahagslegt hryðjuverk"  - mikla andstöðu kerfisins við hugmyndir um borgaralaun o.s.frv. 

Þannig má segja að það megi líta á ýmsa hluti sem tegundir af ákveðinni andstöðu gegn þessu módeli, t.d. að rækta djúpstæð alvöru jafningjasambönd frekar en að líta á kynlíf sem neysluvöru. Vináttan er einmitt mikilvægur kjarni þar, og eðli vináttunar er að hún krefst ekki endurgjalds og er ekki ástunduð með einhvern framtíðarágóða í huga. Sá sem lítur svo á skilur ekki vináttu og um leið og þú uppgötvar að einhver í umhverfinu í í rauninni bara að nota þig þá er viðkomandi alveg örugglega ekki vinur þinn. 

Varðandi menntamálin þá er hér ákveðinn vandi sem ég hef persónulega nokkrar áhyggjur af. Í umræðum um breytingar á kennsluháttum er oft talað um eitthvað sem heitir 21st Century Skills og tengist aukinni áherslu á tækninýjungar, samskiptamiðaðar kennsluaðferðir o.s.frv. - að verulegu leyti jákvæðir og uppbyggilegir hlutir. Málið er samt að þessir færniþættir er færni "frumkvöðulsins" ... Inn í "gagnrýna hugsun" sem er hluti af þessum pakka er ekki hugsuð raunveruleg samfélagsgagnrýni og yfirvegun samfélagsgerðarinnar. Ein mantran sem þessi pæling byggir á er "við vitum ekki hvaða störf verða til eftir X ár" og þurfum að búa unga fólkið undir það. Eða hvað? Við munum þurfa kennara, löggur, hjúkrunarfræðinga, smiði, málara.... eiga allir að verða Steve Jobs? Er þetta ekki eitthvað aðeins skrýtið? 

Ég held að málið sé að lýðræðislega þenkjandi, og mögulega róttækir, umbótasinnar í menntamálum verða að fara varlega í að gleypa við þessum pælingum, taka það sem er gott en gæta vel að því að ekki eru allir viðhlæjendur vinir. Sérstaklega hugsa ég að við þurfum að gæta okkar að gína ekki yfir teknófílíuna sem tengist þessu öllu saman.
Hvorki mér né Todd (ef ég skil hann rétt) dettur í hug að hlutverk neytenda og frumkvöðuls séu af hinu illa - ógnin er fólgin í því að þessi hlutverk yfirskyggja allt annað og gætu í einhverjum afar raunverulegum skilning ógnað sjálfum kjarna mennskunnar: vináttunni og ástinni. 

No comments:

Post a Comment