Thursday, November 14, 2013

út fyrir rammann...

Ég rakst á þennan frábæra pistil eftir Berglindi Tómasdóttur. Hún talar um klassíska tónlist og hljóðfæranám og grundvallaratriðið er að allur kúltúr í kringum þann heim sé að einhvejru leyti læstur í fortíðinni og bara allt of einhvern veginn 'klassískur'. Pælingin að hægt sé að ganga í gegnum áralangt hljóðfæranám þar sem aldrei er neinn spuni eða frumsamið á dagskrá er með ólíkindum - geri ráð fyrir að margir verði til að andmæla þessu, enda ekki pælingin að setja hér á miklar rökræður um tónlistarnám per se.

Það sem vekur áhuga minn hérna er hliðstæðan við almenna menntun og þá almennu pælingu að áherslan á sköpun í skólum yfirhöfuð er ótrúlega lítil. Kennsla í skapandi greinum er jafnvel ekki endilega neitt sérstaklega skapandi.....

Svo ráðlegg ég bara öllum að lesa pistilinn hennar og pæla í þessu máli - síðast en ekki síst vil ég minna á að kennsla (af öllu tagi!) er skapandi grein og ég var að fá mergjaða hugmynd varðandi ræðudæmið sem ég er með í gangi í ens103....

Thursday, October 31, 2013

Menntabloggari skoðar heiminn 2 (lýðræði í verki)

(aðvörun: þessi texti kann að innihalda kaldhæðni - bið alla að gæta að því áður en þeir gera athugasemdir. ef fólk hefur ekki vald á, eða gráðu í, kaldhæðni, mæli ég með að leita til einhvers sem það hefur áður en gerðar eru athugasemdir við einstaka þætti ritsmíðarinnar)

Ég heimsótti þriðjudaginn 29. október ásamt Inga skólastjóra menntaskóla í Kaupmannahöfn sem heitir Det frie gymnasium Þessi skóli byggir á lýðræðisprinsippum og hefur starfað samkvæmt þeim í 40 ár. 
Ingi við innganginn


Quri Palomino Janns sem kennir spænsku og íþróttir tók á móti okkur og var frábær gestgjafi. Hann fylgdi okkur allan morguninn og var mjög upplýsandi og þægilegur gestgjafi. 

Það fysta sem slær mann þegar maður kemur inn í skólann er veggjakrotið / -skrautið sem er út um allt.  Þetta er það sem blasir við þegar maður kemur fyrst inn í skólann: 



Það er nokuð ágeng stemming sem fylgir þessu - en þarna má segja að í rauninni sé það þannig að maður sjái lýðræðið í verki - krakkarnir skreyta sjálfir stofurnar með sínum eigin verkum. Sumar stofurnar eru mjög flottar, og aðrar síður - það fer eftir bekkjunum. Því miður náði ég ekki að fara um og taka myndir af mörgum ólíkum stofum - rakst hins vegar á þennan skemmtilega texta: 


Þegar gengið er inn í skólann þá kemur maður beint inn í stór sameiginlegt rými. Þetta rými er í raun eins konar lýðræðistorg. Matsalur / fundarsalur / kennarastofa / afþreyjingarsvæði /listsköpunarsvæði. Það höfðaði sterkt til mín að strax á vinstri hönd var matsalan svo það leið ekki langur tími þar til maður var kominn með kaffibolla í hendina. Hvern dag er stuttur fundur kl. 10 þar sem hægt er að koma með tilkynningar og pælingar - en hvern fimmtudag er svo stórfundur þar sem teknar eru ákvarðanir um allt og ekkert sem varða skólann. Á þessum fundum eru teknar ákvarðanir um matseðil, agamál, ráðningar kennara - allt og ekkert!  Allir hafa eitt atkvæði, allir starfsmenn, nemendur og kennarar. 

Geri ráð fyrir að það séu tvö atriði sem eru frekar sláandi í þessu. Annars vegar að opna rýmið sé líka kennarastofa og að nemendur kjósi um ráðningu kennara. Quri kynnti okkur fyrir Søs Bayer sem er rektor skólans og var einmitt líka kosin í embættið með þessum hætti. Við ræddum þessi mál við kennara og nemendur og eitt atriði sem nemendurnir lögðu mikla áherslu á var gott samband við kennara. Þann skamma tíma sem við vorum þarna var ekki annað sjá en að samband milli kennara og nemenda væri mjög óþvíngað og eðlilegt. Ég hjó eftir að einn af nemendunum sem við töluðum við sagði að þau væru ´vinir' kennaranna - en svo leiðrétti hún sig og sagði að það væri ekki rétta orðið. 

Quri sagði að hann liti svo á að þetta kerfi hefði fleiri kosti en galla Stærsti gallinn er hversu langan tíma hlutirnir taka. Annar galli er að stundum eru ákvarðanir ekki góðar. Ég reyndar þekki ekkert kerfi sem getur ekki af sér vondar ákvarðanri. Góður stjórnandi með mikið vald getur líka gert mistök. Reyndar veit ég ekki til að slíkt hafi gerst í Versló, en það er undantekning. 

Fyrsta upplifun okkar var stuttur fundur af þessum toga. Margir tóku til orða, en þátttakan var bara lítill hluti nemenda. Flestar meldingar voru um eitthvað tengt félagslífi eða starfi hinna ýmsum nefnda. Nefndastarfið er grunnur lýðræðisins og á stórfundum leggja hinar ýmsu nefndir fram sín mál. Gaman að því að rektor tók til máls og ræddi um umgengnismál - sum mál eru þess eðlis að þau þarf að ræða alls staðar og stöðugt! 
Gefið til kynna að mðaur vilji orðið
Det frie getur ekki flokkast sem róttækur lýðræðisskóli, líkt og t..d. Sudbury Valley. Ástæðan er sú að starfsemi skólans, eða meginhluti hennar, er menntaskóli sem starfar samkvæmt reglum og fyrirmælum yfirvalda. Nemendur taka samræmd stúdentspróf. Tilraun skólans (samkvæmt ákvörðun fundar) fyrir nokkrum árum til að koma á frjálsri mætingu var tekin föstum tökum og stöðvuð af yfirvöldum. Skólinn er einkaskóli með svipðum hætti og Versló - og oft eru slíkir skólar í spennandi og dýnamísku sambandi við yfirvöld af ýmsum ástæðum. 

Ágætt er að halda því til haga að skólinn útskrifar nemendur sem eru háir á stúdentsprófi. Sterkustu greinarnar þeirra eru félagsgreinar og hugvísindi. Raungreinar sækja í sig veðrið. Skapandi greinar hafa sterka hefð þarna, en í núverandi andrúmslofti í menntamálum eiga þær undir högg að sækja hér sem annars staðar.

Við heimsóttum hin einstaklega sjarmerandi Kazem Neisari þar sem hann var að kenna líffræði. Líffræðistofan er undanþegin veggjakroti - sem er mjög eðlilegt þegar þarf að gæta að hreinlæti í tengslum við tilraunir o.s.frv. Verkefni nemenda var að rannsaka sjálfa sig, varðandi blóðþrýsting og ýmsa aðra lífsstílsþætti, m.a. reykingar. Lifandi og skemmtileg kennsla og stemming í tímanum, en ekkert sem gæti ekki alveg eins verið í gangi í Versló eða hvar sem er, þannig lagað.  Kazem reyndist hafa átt fullt af íslenskum vinum á námsárum sínum í Kaupmannahöfn og m.a. spilað í fótboltaliði með íslendingum og tekið þátt í 17, júní hátíðahöldum. Hann móðgaði okkur félaganna reyndar með því að hafa orð á því að við værum óvenju smávaxnir íslendingar! Kazem hafði flúið klerkaveldið í Íran, en ólst upp við mikið og þrúgandi feðraveldi fyrir byltingu. Hann þarf að ferðast langa vegalengd til að kenna í Det frie - en hann vill hvergi annars staðar vera!

Niðurstaðan var að þetta er mjög spennandi skóli og að það verður spennandi að vera í sambandi við þau og læra meira um lýðræði í verki. Það er líka hægt að sjá að nýta má lýðræði með ýmsum hætti án þess að fara alla leið. Svo er líka spurning hvort tíminn fari að koma fyrir lýðræðisskóla á Íslandi.....


Monday, October 28, 2013

Menntabloggari skoðar heiminn

Nú hefur menntabloggarinn ykkar verið þögull um nokkurt skeið - þetta á sér margvíslegar skýringar - en ekki sít þá að hann (ég) hefur verið á flakki um veröldina.

Fyrst fór hann (ég) til USA - nár tiltekið Boston og heimsótti þar ægilega fínan einkaskóla St Georges -
og svo hinn massívt flotta háskóla Harvaard.

Markmið ferðarinnar var að fræðast um Mindfulness í kennslu og í stuttu máli lukkaðist það vel

Í því samhengi stendur tvennt klárlega upp úr að mínu mati.

1) 5 mínútna hugleiðsla í Zen anda í St Georges í kapellunni.

Sitja
Hálf-opin augu
Telja andardrætti
5 mín - 2 klst.
(hægt að byrja og enda með bjöllu, vera með reykelsi og e-ð - en það er óþarfi)

2) Kynning á hugmyndum Ellen Langer um mindfulness.  elsta áherslan hennar er á vitsmunalega nálgun á mindfulness. Hann (ég) hefur ekki fundið góða þýðingu á mindfulnesss. Nokkrir punktar hjá henni voru mjög áhugaverðir, en áhugaverðast fannst mér þessi pæling með að gera hlutina með smá tvisti í hvert skipti - jafnvel þannig að maður taki bara sjálfur eftir því. Reyndar er þetta nokkuð sem ég geri sjálfur og hef alltaf gert - með það helst að augnmiði að deyja ekki úr leiðindum.

Hún semsé gerir ekki mikið með hugleiðslu - en - mér finnst samt eins og að einhverju leyti séu hennar pælingar þess eðlis að þær falli vel að koan-hefðinni í Zen .... og reyndar þá líka að margvíslegum pælingum úr nútímalistum t.d.

Sp: Hefur hundur búddaeðli?
Sv: 4.33

(frumsaminn og tvistaður kóan)

Nú svo fór hann (ég) til Danmerkur stuttu eftir að ég (hann) kom heim frá USA og heimsækir þar (enn) Rysensteen menntaskólann í miðborg Kaupmannahafnar. Fyrsta alvöru heimsóknardaginn hefur þetta gengið á:

-Trúarbragðatími með íslendingum og dönum (5S úr Versló er semsé að heimsækja 3X hér og við erum 2 kennarar og skólastjóri frá Versló). Í þessum tíma glímdu tæplega 60 nemendur í hópum við klípusögur sem Johanna hafði valið saman.... hún skipti þeim í hópa og þau komu svo með niðustöður og kynntu fyrir hinum. Kennslan fór fram í stóru fjölnotarými sem mér finnst að ætti að vera til boða í hverjum skóla.



Síðan sat ég fund með Inga um hvernig Rysensteen hefur náð að verða að skóla sem notar tölvur og upplýsingatækni með skipulögðum og effektívum hætti. Allir tímar eru lagðir upp i upplýsingakefinu og nánast öllu efni er miðlað pappírslaust. Þetta sáum við líka í verki í tímunum. Líklega er þetta alls ekki óraunhæft markmið í Versló (ég er kominn vel í áttina í minni kennslu) .... en engu að síður er ljóst að þau eru kominn miklu lengra en við.
kennarstofan í Rysenteen

Svo sat ég byrjunina á fundi um töflugerðina. Rysensteen er með það sem, kallað er fljótandi töflu. Hver hópur á að fá ákveðið magn tíma í hverri grein, en svo er taflan skipulögð þannig að hægt er að leiðrétta fyrir öllum vettvangsferðum, endurmenntun kennara og öllu slíku. Þetta er algjör snilld og ætti að taka upp ekki seinna en á morgun í Versló.

Lokatími dagsins var svo heimspekitíma með Per. Umfjöllunarefni tímans var siðfræðikenning W.D. Ross  . Áhugavert efni og nemendurnir voru ótrúlega áhugasamir - en það er greinilegt að heimspekin sem kennslugrein í dönskum menntaskólum er mjög í anda hefðbundinnar háskólaheimspeki - ólíkt nálgun sem ég hef haft áhuga fyrir sem er meira í anda heimspekipraktíkur og barnaheimspeki.

Per er hins vegar mjög öflugur kennari og mér fannst kúl hvernig hann byggði tímann upp:

Upphitun (hugtakaleikfimi .... upprifjun)
Þrælavinna (svara efnislegum spurningum og ræða)
Opnari umræður (sjónarmið nemenda og opnari spurningar ræddar)

.... svo hjó ég mjög eftir því að í lok tímans stóðu nemendur upp og fóru að ræða pólítík ....

Í stuttu máli þá er Rysensteen mjög spennandi skóli. Mest spennandi er hvernig þeir nota upplýsingatækni, fjótandi taflan og svo virkilega áhugasamir og öflugir kennarar og nemendur - og svo líka öflugt alþjóðasamstarf!

Á morgun heimsæki ég
svo með Inga Det Frie Gymnasium og kynnist þá lýðræðisskóla í verki. Blogg um það mun svo fylgja.





Monday, September 23, 2013

Traust

"Á móti trausti læt ég koma traust, á móti vantrausti læt ég einnig koma traust, þetta eflir traustið."

Bókin um veginn

Smiðurinn frá Nasaret sagði svo líka eitthvað svipað.

(en óttast að verða stimplaður sem einhver öfgamaður ef ég fer að sítera hann)

Flaug þetta í hug af tvennum ástæðum.

Hlustaði á þetta áhugaverða og þankavekjandi viðtal Harmageddon manna við Hermann Stefánsson um Blátt áfram málið og lít þannig á að einn kjarninn í gagnrýni á málatilbúnað þeirra samtaka er hvernig það grefur undan trausti í samskiptum barna og fullorðinna almennt og yfir línuna.

Hin ástæðan er hið stöðuga og viðvarandi vantraust sem kennarar auðsýna nemendum sínum í stöðugum áhyggjum af svindlum, ritstuldum og símamisnotkun í tímum - það virðist vera það eina sem allir kennarar geta alltaf sameinast um.

Úff.

Sýnum traust - eflum traustið.

Sunday, September 1, 2013

'Pub quiz' sem kennsluaðferð

Í sumar leið fór ég á tónlistarhátíðina All Tomorrows Parties og skemmti mér hið besta. Ég lét þar plata mig til að taka þátt í Pub Quiz um popp og rokktónlist og kom þá í ljós algjör vanþekking mín á málaflokknum. Ég hef annars ekki tekið þátt í slíkum uppákomum og formið vakti forvitni mína.

Í síðustu viku sló ég svo til með hópana mína í Ens103 og bjó til smá svona hópspurningakeppni úr efni kafla sem við vorum að fara í - efnislega og úr orðaforða. Ég skipti bekkjunum upp í hópa, hóparnir svara spurningum saman (og sumar spurningarnar voru níðþungar), og fara svo yfir svör hjá hvorum öðrum. Ég útbjó síðan skjal þar sem sigurhópurinn var heiðraður - og tók mynd af viðkomandi hóp, prentaði skjalið út og hengdi upp í stofunni.

Þetta reyndist mjög skemmtilegt. Nemendur eru mjög virkir og leggja sig eftir efninu og eru að pæla í því allan tímann - bæði meðan þau svara og meðan þau fara yfir. Það þarf vitaskuld að huga að því hvernig skipt er í hópa, en í svona leiki er engum stillt upp við vegg og allir ættu að eiga möguleika á að vera með í einhverjum hluta málsins.

Þetta er einn hluti af alsherjar viðleitni minni til leikvæðingar námsins og kem inn reglulega með fleira þegar ég prófa eitthvað nýtt!

Thursday, August 22, 2013

Besta skólaár mannkynssögunnar

Í nýlegri Facebook-færslu frá Nassim Taleb setur hann fram eftirfarandi hvatningu:

'Be underqualified in your hobbies and overqualified in your work'

... hann leggur út af þessu með því að velta því upp að oftast sé þessu öfugt farið í samtímanum, ég leyfi lesendum að íhuga þetta sjálfum. 

Hvað varðar kennslu setur hann fram þá pælingu að maður eigi aldrei að kenna neitt sem maður þurfi að fletta upp. Mér finnst þetta mjög flott hugmynd - og hef í rauninni svona að einhverju leyti fylgt slíkri línu í mínu starfi. Kannski myndi ég samt vilja bæta við að stundum hefði mátt fletta sumu upp í fyrsta skipti en síðan hafi það lærst við það að kenna það.....

Ég hins vegar lít svo að það sé ákveðin taugaveiklun sem fylgir því að vera stöðugt að fletta öllu upp og fara alltaf inn í kennslustofu með belti og axlabönd. Ef maður kann eitthvað á maður að hvíla öruggur í þekkingu sinni og ekki vera í sífelldu stresskasti að baktékka allt og ekkert - nú og þegar eitthvað er ekki nákvæmlega kórrétt eða gleymist þá er þar möguleiki fyrir nemendur að láta ljós sitt skína og alla hlutaðeigendur að læra af reynslunni. 

Ég vil svo líka bæta við (sem ég hef reyndar gert áður) að það sé mikilvægari undirbúningur fyrir kennslu að vera með opin huga, hressa sál, úthvíldur og tilbúinn til að vera í miklum, virkum og áhugaverðum samskiptum heldur en að hafa legið í einhverjum skruddum til að rifja efnið upp í N-ta skipti - og - mér finnst frábærar kennslustundir sem eru sterk mannleg upplifun milljón sinnum mikilvægari en öll litfögur verkefni og gagnvirk próf veraldarinnar samanlögð.

Býð svo alla kennara og nemendur velkomna til starfa á þessu nýja skólaári - sem - líkt og nýja þingið eins Óttar Proppé benti okkur á - hefur alla burði til að verða allra besta skólaár mannkynssögunnar - það er bara undir okkur komið. 

Friday, July 26, 2013

Spil, speki og rokk

Halló!
Ég set hér inn smá blogg í tilefni af skemmtilegu innliti mínu til Frosta og Mána í Harmageddon núna í morgun - kveikjan var vinna mín að Klapplandi sem var fjallað um í Fréttablaðinu í gær. Ég var hæstánægður með þetta og við spjölluðum annars vegar almennt um heimspeki og hins vegar um spilið, spil sem kennsluaðferð o.s.frv. - komum svo inn á af hverju strákar sækja meira í heimspeki en stelpur og fleira gott.

Ophidian IÞegar ég var að fara gengu tveir vígalegir dauðarokkarar í stúdíóið - úr hljómsveitinni Ophidian I (sem þýðir 'snákurinn ég')  .... fór reyndar að velta fyrir mér hvort í þessu fælist óbein / bein vísun í Harry Potter en líklega væru svona harðir gaurar ekki ánægðir með slíkar tengingar.

Ármann HalldórssonÉg klikkaði náttúrulega á að nefna mitt eigið framlag til rokksögunnar sem trommuleikari í Mosa frænda - þó reyndar sé Mosinn ekki dauðarokksband - ég er ekki alveg kominn með slædið á bassatrommunni nógu vel á hreint fyrir það.

Ég hef í sjálfu sér ekki miklu við þetta að bæta (öðru en hlekk á viðtalið um leið og það verður klárt), nema að mér finnst frábært að heimspeki og pælingar um kennslu komist að sem víðast og ég er mjög ánægður með framlag þeirra Harmageddon félaga í því sambandi - og finnst kúl að vera kominn í félagsskap við snákarokkara á öldum ljósvakans.

Saturday, April 27, 2013

Kjarninn

Ég hlustaði einhvern tíma á Ken Robinson með eina af sínum skondnu pælingum (þú hefur heyrt eina, þú hefur heyrt þær flestar) - en þar bar hann saman leikhús og kennslu og rakti kenningar einhvers af spekúlöntum frá heimalandi hans Englandi í þeim málum. Samkvæmt þeirri pælingu þá þarftu í raun tvennt til að hafa leikhús: einn leikara og einn áhorfenda. Allt annað er aukaatriði.

Að breyttu breytenda þarf tvennt til að hafa skóla - kennara og nemenda. Skólabyggingar, fjarnámskerfi, stundatöflur, námsbækur, skólastefnur, kennsluréttindi, próf og námsáætlanir eru aukaatriði. Ég kenni aðallega ensku og ég met það þannig að stefnumót mitt við nemendur þar sem áherslan er að ég hlusti á þau og þau á mig og við vinnum saman í að þroska það dásamlega fyrirbæri sem tungumál er með sjálfum okkur saman gangi þetta best. Gott er að byggja þetta samtal á einhverju góðu stöffi, bókmenntum eða greinum um hin ýmsu mál en það stöff er ekki aðalatriðið - það er breytingin sem verður á nemandum (og kennaranum) sem skiptir máli.

Ég deili þeim ótta með Ken blessuðum að við höfum misst sjónar á þessu og að það sé nákvæmlega stundatafla, áætlanir, próftöflur og allt það dótararí hafi fengið allt of mikla athygli allra hlutaðeigandi (líka kennaranna og nemendanna). Ég tel líka að upplýsingatæknin með öllum sínum dásemdum beri ákveðna ógn við þetta stefnumót í sér - þó að hún bjóði líka upp á góða hluti.

Til viðbótar við leikhústengingu Kens má taka þetta ákveðnum andlegum tökum - þá þannig að öll okkar menning og þmt. skóla- og menntamenning einkennist af mikilli hlutadýrkun - hver býr til flottustu verkefnin, er með lengstu listana og nær að fella flesta er aðalamálið en ekki hversu mikið nám átti sér stað. Eitt einkenni hlutadýrkunarinnar er mælingasýki þannig að þó ég telji mig geta bent á leiðir til að auka nám þá þýðir það ekki að ég vilji bjóða einhverjum mælingameisturum upp í nema mjög takmarkaðan dans.

En alveg burtséð frá einhverjum pælingum um fjársjóði á himnum þá liggur það fyrir að þegar við hittum mannveru og ræðum við hana þá er það sú þekking og færni, gæska og skemmtilegheit sem mætir okkur þá þegar sem skiptir máli. Vitaskuld búum að einhverju leyti að prófunum sem við tókum og námsbókunum sem við þræluðumst í gegnum - en - ég hef þá bjargföstu trú að það séu magn og gæði þeirra samskipti við aðra sem við höfum notið sem við búum fyrst og síðast að.

Eini lærdómurinn sem ég hyggst draga af þessu núna er að til að hafa góða skóla þá er aðalmálið að hafa góða og alskonar kennara. Ég myndi vilja sjá fjölbreytilegri, praktískari og samskiptamiðaðri þjálfun fyrir okkur kennarana og svo myndi ég vilja sjá skóla þar sem mikið rými er fyrir miklar, frjálsar og flæðandi pælingar sem er ekki stöðugt verið að trufla og brjóta upp vegna sjúklegrar mælingaráráttu og skipulagsfíknar samtímans.

Sunday, April 7, 2013

Nej til tvungen heldagsskole!


Í Danmörku er deilt um það áætlun stjórnvalda að skylda nemendur til skólavistar sem samsvarar ca. heilum vinnudegi. Í því felst að fella niður starf frístundaheimili, eða að færa það inn í skólann. Upp hefur risið hreyfing fólks sem hefur mótmælir þessu og vill standa vörð um frítíma barna - eru þar á meðal börnin sjálf, foreldrar og starfsmenn frístundaheimila.

Þó ég viti að danskir skólar séu til fyrirmyndar um margt þá verð ég að segja að ég er sammála þeim sem andmæla þessari ráðstöfun og tel mikilvægt að ekki verði farið í svipaðar áttir hérlendis. Skólinn á sinn tíma og lífið á sinn tíma og frístundaheimili og frístundastarf er mjög mikilvægt og þar nýtur ýmislegt sín sem nýtur sín síður innan skólans.


Monday, April 1, 2013

Ævintýralandið

Ævintýralandið

Ég vil bara hérna aðeins tjá mig um spilið Ævintýralandið sem ég hef tekið nokkra snúninga á með dætrum mínum. Í stuttu máli þá líkar þeirri 7 ára spilið ákaflega vel, en þeirri 11 ára síður. Ég hef líka þá reynslu að sumir krakkar kveikja mjög vel á þessu, en ekki alveg allir.

Í þessu spili er unnið með hugmyndir úr klassískum spunaspilum, þær einfaldaðar og snikkaðar niður til að henta yngri spilurum. Það eru karakterblöð þar sem eru sex eiginleikar sem maður getur raðað á fimm stjörnum í upphafi. Að auki getur maður fengið verkfæri, félaga, furðuhluti og hluti. Spilahópurinn glímir svo saman við ákveðin verkefni/ sögur  og fær að launum peninga - peningarnir koma í staða reynslustiga (XP). Það sem minni sjö ára finnst mest spennandi er að fá að kaupa nýja hluti,  öðrum finnst mest gaman að því að lita karakterana sína og aðrir lifa sig inn í sögurnar.

Kostur við þetta spil er að það er mikill sveigjanleiki, maður losnar við samkeppni (þó ekki alveg, því gæta þarf að því að allir hafi sitt hlutverk í hverri sögu). Annar kostur er að spilið er fallega hannað, teikningarnar eru flottar og það ýtir undir ímyndaraflið.

Gallinn er svo að vissu leyti sá sami og kosturinn - það þarf sterkan stjórnanda í þetta spil, og ég myndi halda að fólk sem er ekki vant spunaspilum grípi þetta ekki alveg - þannig að hætt er við að spilið sitji óhreyft upp í skáp víða (líkt og mörg önnur spil!). Jafnframt finnst mér ekki alveg nógu skýrt hvaða afleiðingar það hefur ef eitthvað misheppnast - það á að skera úr um hvort tiltekin aðgerð heppnast með skæri - blað - steinn (sem er snjallt og kemur í stað teninga) - en afleiðingar þess þegar eitthvað misheppnast eru óljósar og stjórnandinn þarf að leysa það - og það getur dregið úr spennunni ef allt gengur alltaf vel. Svipað vandamál er að karakterarnir eru ekki með neitt sem líkist 'lífi' (eða hp) - en krakkar eru yfirleitt vanir svoleiðis úr tölvuspilum. Ég hef reyndar spunnið upp húsreglur þar sem ég einfaldlega bætti slíku við - og gerði sögurnar aðeins meira krassandi. Það er síðasti vandinn að sögurnar eru sumar hverjar mjög snjallar í grunninn en mér finnst þurfa að poppa þær upp - hækka flækjustigið þannig að allir í hópnum fái eitthvað að sýsla og jafnframt að bæta við einhverjum háska....  það er áhugavert að í verkfærunum eru bogi og örvar og sverð, en eftir því sem ég hef séð þá eru engar sögurnar þannig að í þeim séu bardagar - sem mér finnst alveg óþarflega, tja, væmið eða eitthvað....

Allt um það þá tel ég að hér sé um frábæra íslenska spilahönnun að ræða og ég vona að það komi fleiri svona spil á markað. Ég tel líka að þetta spil eigi fullt erindi inn í skólastofuna og frístundaheimilin þar sem hér er ýtt undir samvinnu og samræður, læsi, tölvísi, rýmisskynjun, leikræna tjáningu og margt annað það sem góð spil geta gert - áfram Ævintýralandið!

Steinskrípin

Steinskrípin

Ég keypti mér og las þessa skemmtilegu bók eftir Gunnar Theódór Eggertsson. Þetta er óvenjuleg saga sem fjallar um baráttu tveggja íslenskra krakka í ansi óhuggulegri framtíð þar sem skrímsli hafa skriðið upp á yfirborð jarðarinnar og umbreytt henni í stein. Skrímslin, eða skrípin, eru ansi erfið viðureignar - og næra sig með því að umbreyta steindum lífverum og borða svo. Bergur er vakinn með þeim hætti, sleppur fyrir ótrúlega tilviljun, hittir svo Hlín og þau takast á hendur ferð í þessum heimi - finna annan og síðan fer allt eins og það fer.

Þetta er áhugaverð og nokkuð kraftmikil saga með mjög háu furðustigi - sérstaklega þegar kemur að endanum og lausn málanna. Mér finnst lausnin kannski í það fríkaðasta, og svona kannski dass af deus ex syndrómi þar, en það má ræða það. Mögulega er líka hægt að segja að lausnin sé pínulítið væmin - og sömuleiðis er umhyggja Hlínar fyrir öllu sem lífsanda dregur - þar með talið skrípunum - áhugaverð, en á köflum ekki alveg trúverðug og allt að því pirrandi ... ég fékk aðeins á tilfinninguna að Gunnar sæti í predíkunarstól á nokkrum stöðum - viðurkenni reyndar að ég er extra viðkvæmur fyrir slíku.

Frásögnin er mjög myndræn - og sérstaklega í endann finnst mér að þetta gæti sómt sér mjög vel sem teiknimyndasaga eða teiknimynd - eða gerð með e-i svona vúdú nútíma tækni - lokabardagarnir væru megakúl í þrívídd!

Ljóst er að hugmyndaheimur sögunnur byggir á e-s konar Lovecraft arfleifð með hugmyndinni um verurnar sem sofa á hafsbotni og bíða síns tíma - en ógnin er kannski ekki jafn svaðaleg og sú hugmynd að skrípin séu bara hluti af jafnvægi náttúrunnar sem er gefin í skyn dregur hugsanlega úr slagkrafti hryllingsins. Ég skil hvað er verið að fara, en ég er það tegundamiðjaður að ef til væri fyrirbæri sem mannkyninu stafar slík ógn af sem þessi skrípi þá myndi mín nálgun á fyrirbærið vera að hér væri um tæra illsku að ræða .... en sú staðreynd að bókin ýtir undir svona hugleiðingar hljóta að vera mikil meðmæli!

Mér sýnist að í þessu verki sé gott jafnvægi í nálgun á hlutverk kynjanna - það sést t.d. á kápunni sem sýnir Hlín í bardagaham - en annars verður sú mynd að teljast fremur misheppnuð.

Mæli hikstalaust með þessari bók fyrir börn og fullorðna sem eru til í að fara inn í furðuvíddir framtíðarinnar undir fararstjórn Gunnars Theódórs Eggertssonar.

Saturday, March 16, 2013

Gagnrýni á gagnrýna hugsun alá

Í gær fór ég á málstofu á Hugvísindaþingi sem var titlaður 'Róttæk heimspeki samtímans'. Ég náði reyndar því miður bara fyrst tveimur fyrirlestrunum, hjá Nönnu Hlín Halldórsdóttur og Erlu Karlsdóttur - þessar fyrirlesur voru hins vegar öldungis frábærar - og fyrirspyrjrar og álitsgjafar sem létu í sér heyra eftir mál þeirra myndiðu dásamlegan kontrapunkt - eiginlega var þetta svo elegant þegar ég fór að ég vorkenni Agli sem var næstur á stokk - en skora á þá sem heyrðu í Agli og Sigríði að segja frá í bloggi. Hér segi ég í 'stuttu' máli frá hugsunum mínum um þann fyrri, seinni skelli ég inn pælingum um þann seinni.

Allavega: Nanna réðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur heldur réðst í það verkefni að gagnrýna heilagt mantra íslenskra heimspekinga - gagnrýna hugsun og siðfræði sem samtvinnað fyrirbæri. Hún nálgaðist málið frá nokkrum hliðum, og gerði það nokkuð vel, þó lærðir meistarar við háskólann sæju ástæðu til að saka hana um að hafa annars vegar ekki lært nógu vel heima og hins vegar að rugla saman hugtökum.

Nanna setti fram nokkrar leiðir til að skoða gagnrýna hugsun:

-Sem 'eftirhrunsklisju' á borð við 'Skjaldborg heimilana'
-Sem heimspekikenningu sem er fyrst og fremst verk Páls Skúlasonar, og þá samtvinnuð siðfræði
-Sem greiningu á rökvillum (sem er eiginlega það sem er kallað 'critical thinking' og er kennt sem sérstök grein víða um lönd - stundum kallað óformleg rökfræði).
-Sem gagnrýna kenningu, með rætur hjá Marx, Frankfúrtarskólanum, en í kynningu Nönnu gekk hún út frá Foucault og Butler.

Nanna hóf mál sitt á að leggja þetta fram svona, og í því ljósi er það skrýtið að halda því fram að hún rugli saman hugtökum, því þetta var vel aðgreint hjá henni - og jafnframt var það ljóst að hún hélt því ekki fram að kenning Páls Skúlasonar væri klisja, klisjan og heimspekikenningin voru sett fram sem tveir ólíkir hlutir hjá henni, og ég gat ekki heyrt annað en að kenningunni væri sýnd tilhlýðileg virðing; og e-s staðar segir hinn ágæti heimspekingur Páll að maður sýni heimspekikenningum og skoðunum virðingu með því að gagnrýna þær - þeas. málefnalega. Ég ætla nú að gerast pínulítið grófur (VIÐVÖRUN - BLOGGARI GENGUR MÖGULEGA OF LANGT) og segja að mögulega hafi hin skæða rökvilla 'ad feminem' læðst inn og truflað ákveðna í áheyrendaskaranum þarna í gær í máli þeirra.

Það er alveg augljóst að mikið af því sem hefur heyrst um að það þurfi að efla gagnrýna hugsun og siðfræði í skólum og annars staðar ber mörg einkenni þess að vera klisjukennt, innihaldslaust blaður. Maður fær það á tilfinninguna að 'siðfræði' snúist um það að Siðfræðingurinn safni saman leikskólabörnum, bankamönnum, pólítíkusum og öðrum sem til vandræða kunna að vera, þrumi yfir þeim og - barbabrella - siðferðið mun að nýju eflast og dafna og ekkert hrun verður aftur á bakvið skjaldborgina. Umræða í tengslum við tam. grunnþættina góðu sem eru í Aðalnámskrá er í mikilli hættu varðandi klisjuvæðingu og þess vegna vil ég þakka Nönnu fyrir að segja þetta sem ég held við höfum mörg verið að hugsa. Að neita því að þetta sé klisjukennt á köflum er ótrúlega barnalegt að mínu mati.

Kenning Páls Skúlasonar, sem ég ætla ekki að fara í í smáatriðum hér, er náttúrulega vel rökstudd og uppbyggð útfærsla á sterkum þráðum úr hefð heimspekinnar - og felur í sér sterka trú á mátt rökhugsunarinnar og skynseminnar. Það sem er sérstakt og, í raun nokkuð róttækt, í kenningu hans er sá hornsteinn hugsunar hans að gagnrýnin hugsun, sé hún réttnefnd sem slík, muni alltaf komast að siðferðilega réttum niðurstöðum. Þannig væri það alltaf útilokað að verk á borð við Mein Kampf stæðist skoðun gagnrýninnar hugsunar (ath. Ad Hitlerium). Nú stenst MK örugglega ekki slíka skoðun, en eins og ég skil málið þá myndi kenning Páls segja að við gætum fyrirfram gefið okkur að slíkt verk sem á sér siðferðilega óverjandi markmið, myndi aldrei geta staðist röklega. Ég held að þetta sé hæpið - ég er ekki siðferðilegur afstæðishyggjumaður - hins vegar tel ég að siðferðilegar staðreyndir komi 'eftirá' - sprottnar úr reynslu okkar af mennskunni (ath. þetta er ég, ekki Nanna).

Kenning Páls og svo fyrirbærið 'Critical thinking' sem kennslugrein í óformlegri rökfræði var kannski það eina sem Nanna greindi ekki skýrt í sundur. Hún benti á að í beitingu þessara fyrirbæra þá myndi maður leita upp stök og greina þau og álykta hvort þau féllu undir gagnrýna hugsun. T.d. mætti hugsa sér að taka kosningaloforð og setja þau fram í töflu sem GH og ekki GH. Gagnrýni Nönnu hér fólst svo í því að benda á að forsendurnar - t.d. skilgreiningin á 'rökvillum' væri mögulega gagnrýniverð og að sú kenning sem yrði ofan á fæli í sér ákveðna valdbeitingu. Mikilvægt er að mínu viti hérna að gera skýran greinarmun á því sem í formlegri rökfræði eru rökvillur og grunnreglur - og svo því sem er notast við í óformlegri rökfræði. Raunar er það svo að óformlega rökfræði stendur fræðilega séð ekkert sérstaklega sterkum fótum og hefur verið gagnrýnd fyrir að vera alhæfingasöm og ófrjó (nákvæmlega - ALHÆFING - HVAR ER HEIMILDIN????). Þannig mætti gagnrýna t.d. hugmyndir um rökvillur á borð við 'slippery slope' eða 'ónóga aðgreiningu'  án þess að maður ætli sér endilega að neita því að hringskýring eða 'post hoc ergo propter hoc' séu rökvillur. Það er líka mikilvægt - og þetta kom ekki fram í gær - að það er engin hefð fyrir því í kennslu Critical Thinking að fella hana að siðfræði eða siðferðilegum pælingum með neinum hætti - enda sprottinn úr hefð sem hefur djúpstæðar efasemdir um allar pælingar um fyrirfram gefið siðferði -semsé rökgreiningarheimspeki og pósítivisma....

Sú gagnrýni sem Nönnu hugnaðist best er svo gagnrýnin kenning af ættmeiði Frankfurtarskólans (og lengra til baka) en hún kynnti það fyst og fremst eins og Judith Butler beitir það. Grunnkonseptið í þessari pælingu er að í gagnrýni þá vinnum við í því að rannsaka og færa til mörkin sem við lifum í í daglega lífinu. Það mætti þá bera það saman við eitthvað af því sem er komið fram hér að ofan. Kannski má skilja bæði Pál og CT nálgunina þannig að við eigum ágætt kerfi sem við skiljum bara ekki nógu vel. Gagnrýnin hugsun gengur út á að kynna og beita með réttum og góðum hætti þeim prinsippum sem búa í vestrænni rökhefð (og lýðræðishefð og lagahefð o.s.frv.). Gagnrýnin kenning beinir hins vegar sjónum sínum að mörgum þessarrra prinsippa og telur að mögulega felist í þeim helgun á ákveðinni kúgun: kúgun á konum, minnihlutahópum, samkynhneigðum o.s.frv. Jafnframt felur þetta kerfi í sér ákveðna forskrift um það hvernig lifa bera lífinu og hafnar öðrum mögulegum leiðum. Nanna sagði að Butler væri manneskja sem hefði uppgötvað að þessi forskrift passaði ekki við það hvernig hún sæi lífið og þannig hefði hún í raun verið knúin tilvistarlega til að vinna í því að rannsaka þessar forskriftir og að gagnrýna kenningin spretti þannig eðlilega af veru hennar í heiminum.

Nú er það þannig að þegar maður t.d. kennir heimspeki í framhaldsskóla má ljóst vera að líkurnar eru til að maður haldi sig innan hefðar - t.d. er kennsla í rökvillum klassísk og góð aðferð til að byrja heimspekinámskeið (og gott að prófa úr þeim). Þó held ég að það sé ekki mikið mál að kenna svoleiðis hluti með þeim hætti að maður grafi undan um leið og maður byggir upp - en það er ekki auðvelt endilega - og þó ... ég hugsa að það sé líka þannig að í gagnrýnu kenningunni er það sem gagnrýnin og sköpunin hittist og þannig held ég að heimspekin verði að taka til sín lærdóma úr listum þar. Aðalatriðið held ég að sé að gera sér grein fyrir því hvernig heimspekin og fræðaheimurinn almennt á sér margar hliðar, þætti og fasa -


...og ég verð að segja að ég gleðst í hjartanu og heilanum við að sjá þessar frábæru fræðikonur setja fram sitt mál eins og þarna í gær - og næst skelli ég inn einhverjum hugleiðingu útfrá fyrirlestri Erlu - og semsagt Takk fyrir mig!


Saturday, March 9, 2013

Þriggja heima saga - Hrafnsauga

.... aftur ætla ég að gera smá blogg um furðusögu, og stelast þannig framhjá menntamálunum í annað sinn. Hafði upphaflega ætlað að gera eitt blogg um þessar tvær bækur, þeas. Spádómurinn og Hrafnsauga en mér finnst það eiginlega bara asnalegt, ég kem inn á smá samanburð í þessu bloggi samt, bara smá.

Allavega: Kjartan Yngvi Björnsson og Snæbjörn Brynjarsson feta í Hrafnsauga svipaða slóð og Hildur Knútsdóttir í Spádómnum í því að skrifa svokallaða 'Háfantasíu' - þar sem skapaður er nýr heimur frá grunni. Fantasíur sem við erum vön eins og t.d. Harry Potter bækurnar eru 'Lágfantasíur' í því að í þeim er heimurinn eins og við þekkjum hann notaður en við hann bætt öðrum heimi, vídd eða hvað má kalla það sem er heimur fantasíunnar. Í ljósi þessa er dáldið skondið að þeir velji yfirskriftina ´Þriggja heima saga' þar sem okkar heimur er klárlega ekki einn þessara heima.

Heimur þeirra Kjartans og Snæbjarnar er mun flóknari og lögð hefur verið meiri vinna í sköpun hans en í heim Hildar - enda er hér lagt upp með að þetta eigi að verða að bókaflokki, í það minnsta þríleik. Baksagan er mun skýrari og dýpri og illska þeirra illu ógnvænlegri og nær betur til manns.

Aðalpersónan, eða ein þeirra, Ragnar, er, líkt og Kolfinna (og Harry Potter, og Logi Geimgengill og, og,... ) útvalinn og gegnir lykilhlutverki í alheimsplottinu - og líkt og Bilbo, og Logi og ... leggur hann upp í mikla ferð með félögum sínum og vísum aðstoðarmönnum - sem er raunar rétt hafin í lok bókarinnar. Félagar hans eru Breki og Sirja - 2 strákar og ein stelpa. Þau eru öll vel gerðar og áhugaverðar persónur að mínu mati.

Mér finnst þetta mjög skemmtileg og grípandi frásögn. Ég hafði mjög gaman af hvernig íslenskum, finnskum, enskum (Welskum?), grænlenskum og svo ýmsum öðrum vísunum er blandað saman. Örnefnin eru flest íslensk, en nöfn persónanna koma héðan og þaðan og talað er um ýmis tungumál og mállýskur o.s.frv. sem virkar allt mjög áhugavert og heillandi og heimur sem mann langar að kynnast betur.

Frásögnin skiptir um sjónarhorn milli persónanna og við sjáum atburði lika frá sjónarhorni myrkraveranna. Þetta er áhugavert og gefur ákveðna tilfinningu sem skortir oft í svona sögum. Engu að síður er enginn vafi á því að þeir illu eru illir. Það einfaldar svona frásagnir þegar þeir vondu vita að þeir eru vondir - flest illmenni mannkynssögunnar hafa farið fram í þeirri trú að þeir væru góðir....

Ein aðferð sem mér líkaði vel í frásögninni var notkunin á skáletrun, en hún gefur til kynna einhvers konar innri díalóg persóna, þar sem fram koma ákveðnar efasemdir eða íhugun og kryddaði það skemmtilega.

Áhrif á þessa sögu eru héðan og þaðan. Pælingin með hið forna tungumál sem hefur galdramátt þar sem orðin tengjast hlutunum er sterk hjá le Guin í Earthsea bókunum, en er líka þekkt víða. Tolkien er þarna líka á sveimi, en ekki kannski sem neitt lykilatriði. Ég þykist líka greina þræði sem rekja mætti til spunaspila - einkum þegar persónurnar eru að vopnbúast og líka í frásögnum af bardögum sem mér finnst vera vel heppnaðar og grípandi.

Ég verð að segja að ég hlakka mjög til framhaldsins og enginn vafi á þeir félagar koma sterkir inn í íslensku furðusöguna og íslenskar bókmenntir og voru vel að barnabókaverðlaunum komnir. Það er hins vegar engin spurning að þessi bók hentar fullorðnum sem hafa smekk fyrir fantasíum vel, og gæti reynst nokkuð erfið fyrir of ung eða viðkvæm börn - gæti vel getið af sér nokkrar martraðir....

Hrafnsauga

Spádómurinn - Hildur Knútsdóttir

Ég er aðeins að svíkjast um varðandi efni þessa bloggs og fjalla um annað áhugamál mitt hér, en ég vel að gera það frekar en að stelast til að skrifa á íslensku á enska bloggið mitt - úff stundum er lífið svo flókið.... en hins vegar tel ég nú að umfjöllun um bókmenntir og menntamál séu nú ekki svo fjarlæg að lesendur fái flog... hmm.... auk þess er þetta náttúrulega mitt blogg.

Ég las nýlega bókina sem er nefnd í titlinum, en ég heyrði Hildi spjalla um hana og lesa úr henni á Furðusagnaþinginu í haust leið, og vakti það áhuga minn. Helsta einkenni hennar er að í henni er hefðbundnum kynjahlutverkum í fantasíum og almennt í bókmenntum snúið við og allir þeir sem eru virkir í átökum bókarinnar, góðir sem illir, eru konur, en karlmenn eru í bakgrunni. Þetta element virkar vel og gefur bókinni skemmtilegan blæ og lofar góðu um framhaldið í skrifum Hildar.

Bókin er annars á vissan hátt mjög hefðbundi fantasía þar sem aðalpersónan, Kolfinna, er svona 'chosen one' sem kemst í kynni við undraöfl og (spoiler alert!) bjargar málunum. Illkvendið ógurlega Iðrun er vissulega nokkuð óhuggulegt.... en ....

Helsti galli bókarinnar finnst mér að baksagan er nokkuð óskýr og illska Iðrunar einhvern veginn fjarlæg og nær ekki til manns - og úrlausnin frekar létt. Kostur bókararinnar er að heimurinn sem Hildur býr til er áhugaverður og býður upp á frekari ævintýri, og svo er ferðin til tunglsins og karakter Jóns intresant - og starálfatýpurnar skemmtilegar ... Það er þó þannig að sagan er frekar lokuð, þeas. framhaldið mun ekki byggja á frekari vandræðum í sambandi við Iðrun allavega. Hins vegar eru möguleikar varðandi tenginguna suður o.s.frv. Hugmyndin um að allir yrðu að ganga með vængi fannst mér líka mjög skemmtilega súr - kannski hefði verið hægt að gera sögu sem væri þannig að það væru alltaf allir með vængi en það reyndist svo bara vera óþarfi...

Ég mæli með bókinni við alla sem hafa gaman af furðusögum, og ekki síst fyrir stelpur og konur til að fá smá skammt af áhugaverðum tilraunum með kynjavinkilinn í þessum geira.

Spádómurinn

Saturday, February 2, 2013

Nemendur og kennarar að leik

Í nýrri námskrá í lýsingu á grunnþættinum sköpun er nefnt að leikurinn sé góð kennsluaðferð. Ég er sammála því og tel að líkt og margar aðrar góðar kennsluaðferðir sé leikurinn vannýtt aðferð. Ég er núna að keyra valnámskeið í Versló sem gengur mestan part út á að nemendur eru að leika sér, í spunaspilum nánar tiltekið. Verkefnið er algjör tilraun, en fer nokkuð vel af stað. Ég gef nemendum efni til að byrja á, en hleypi þeim svo mjög frjálsum af stað út í leikinn, og reyndar út í skólann líka, þar sem hver hópur hefur fundið sér aðsetur. Ég hleyp svo á milli, fylgist með og úrskurða um vafaatriði. Það kemur margt í ljós um frumkvæði, sköpunarkraft og svo framvegis í þessu sem ég mun segja meira um þegar lengra líður á. Næsta skref hjá mér er að setjast inn í hvern hóp og spila með. Ég tel að spilin séu frábær uppspretta fyrir óformlegan lærdóm í orðaforða og ýmsum þrautalausnum, gefi nýtt sjónarhorn á persónusköpun, opni augu nemenda fyrir uppbyggingu sagna og kvikmynda o.s.frv.  .....

Þannig er hægt að nýta leiki og spil með beinum hætti - hitt sem ég tel nú raunar stærra og mikilvægara mál er að kennarar tileinki sér afslappaðri, og það sem er kallað á ensku meira 'playful' afstöðu til starfs síns - mér finnst að kennarar eigi fremur að starfa í anda tilraunasinnaðra lista- og vísindamanna en  þungbrýndra hofpresta .... en það er nú kannski bara einhver léttúð og vitleysa....