Thursday, October 25, 2012

Spuni um grunnþætti

Sat í dag með fullt af áhugasömu og skemmtilegu fólki á smá vinnustofu um grunnþættina. Nú hef ég hafið vinnu við mastersverkefni um lýðræði og er þess vegna hálfgerður lýðræðisnörd - en almennt séð sýnist mér að í grunnþáttapælingunni almennt sé fólgið margt af því sem ég myndi vilja skrifa upp á sem mína grunn menntahugsjón. Þar kemur inn t.d. pælingin um óbeint nám, um að nemandinn sé í forgrunni, þverfagleg vinnubrögð og vinnu kennarans og skólafólks sem skapandi listrænt viðfangsefni.

Ég rek mig samt á það og veit að margir félagar mínir í stéttinni eru einfaldlega ekki á þessari línu. Kennslugreinin og innihald hennar er fyrir stórum hluta kennara slík þungamiðja starfsvitundar þeirra að ég hugsa að grunnþættirnir eigi engan séns. Þá má líta á það að sköpun eða lýðræði sem eitthvað sem mögulega gæti flotið með, og þá hugsanlega að skaðlausu; en það skiptir engu máli samanborið við þekkingu á diffrun í viðtengingarhætti þátíðar á þörungagenum.

Ég ætla heldur ekki að halda því fram að þekking á frumum, sagnmyndum og stærðfræðiaðferðum sé ekki mikilvæg; en hins vegar held ég að sú fremur einhliða nálgun á alla þekkingu, kennslu og námsmat sem þekkingu og umsýslu harðra þekkingarbúta sé úr sér gengin og grunnþættirnir geti verið vegvísir inn í nýjan skólaheim.