Saturday, November 10, 2012

rausað um yfirferð og fundi

Las þessa öldungis stórskemmtilegu grein eftir Eddu Kjartansdóttur samkvæmt ábendingu frá Guðrúnu Geirsdóttur, sem er leiðbeinandi minn í mastersnámi. Ég er pínu svona, tja, óþekkur eins og Edda talar um og hef mikla tilhneigingu til að vilja skrifa á svoldið svona, tja, hráan og hressan hátt og halda sterkri persónulegri rödd, en þetta hefur á stundum rekist á akademísk viðmið. Allavega.

Ég er núna á stað í starfi og námi að ég hef ótrúlega mikið að gera og er svona frekar stressaður (ekkert fram úr hófi samt) - en ég fæ þá hugmynd úr lestri á grein Eddu að það að blogga ekki sé ekki rétt viðbragð og að með því að koma hérna frá mér hráum og hressum texta í svona smá gusum geti ég náð ákveðnum fókus bæði sem kennari og meistaranemi. Pæling.

Jæja, það eru nokkrir hlutir sem plaga kennara í starfi þeirra, og ég finn vel fyrir þeim á eigin anda núna. Tvennt verður tekið fyrir hér.

1) Yfirferð á verkefnum og ritgerðum. Ég er núna í miðju kafi að fara yfir hauga af ritgerðum í Ens103 og svo í Ens503. Þetta er mikil vinna, á köflum ekki óskemmtileg, en býsna krefjandi varðandi einbeitingu og aðferðafræði. Ég er núna í fyrsta skipti á ævinni að fara alfarið rafrænt yfir ritgerðir, og ég er ekki að nota Track Changes í Word. Sú aðferð er reyndar mjög góð, en, nýja leikfangið sem við erum komin með sem heitir Turn-it-in gerir yfirferðina (að mínu mati) mun þægilegri. Í fyrsta lagi þá tékkar forritið allan ritstuld af (mikill kostur), en í annan stað bíður það upp á mjög þægilegar leiðir til að setja inn athugasemdir og býður upp á að setja ínn matskerfi sem maður notar til að gefa einkunn í beinni útsendingu. Nemendur hafa svo aðgang að yfirferð um leið og henni er lokið. Það tekur langan tíma að fara yfir 110 ritgerðir, en hér er tæknin mjög hjálpleg og mæli ég eindregið með að nota svona græjur - Word og Excel ef ekki býðst Turn-it-in. Ég vil svo nefna líka að ég hef ákveðna mínímalíska sýn á yfirferð - benda nemendum á það sem betur má fara, en ekki setja á langar tölur og missa sig í nákvæmninni. Ég velti líka fyrir mér hvort við séum þegar í framhaldsskólanum að setja fólki of þröngar skorður með því að setja inn strangar formkröfur (sbr. hænuna og spurningamerkið) , eða hvort að það sé mikilvægt að negla formin niður áður en fólki er sleppt lausu. Ég hallast að því að vera frjálsari og gefa tauminn lausari, og geri það t.d. í fjarnámsnámskeiðunum mínum, en er að miklu leyti algjörlega einn í eyðimörkinni með slík viðhorf þar sem ég vinn svona frá degi til dags....

2) Fundir. Já, þeir eru unaður. Viðfangsefni meistararitgerðar minnar áætlaðrar er lýðræði. Ég beini þar sjónum m.a. að svokölluðu rökræðulýðræði. Nú er mín reynsla af fundum og samskiptum á hinum ýmsu vettvöngum því miður sú að rökræðan lúti mjög í lægra haldi fyrir örðum formum. Mjög algengur varíantur er það sem kalla mætti tilkynninga og tilskipana samkoma, þar sem hópi fólks er tilkynnt að þetta og hitt hafi verið ákveðið og girt fyrir að spurt sé eða hnýtt í ákvarðanir með því að byrja á að segja að 'þetta verður stuttur fundur' og fundurinn þá hafður í lok vinnudags. Því miður er það svo þannig að þar sem opnað er fyrir umræður fara þær út í mein- og gífuryrði þar sem samskiptin breytast í blammeringar og þegar verst lætur í persónulegar svívirðingar. Þessi síðari gerð er óalgengari, en ég hef þó upplifað eitthvað í þessa veru ótrúlega oft undanfarið - og þetta eru fundir á vettvöngum þeirra sem eiga að vera að leiða æskulýðin inn í rökræðulýðræði framtíðarinnar. Úff.

Niðurstaða mín er sú að yfirferðarmálin séu í farsælli farvegi en fundirnir og við skyldum hætta að funda og einbeita okkur að yfirferð. Nei. Niðurstaða mín er sú að það þurfi strax að efla af miklum móð þjálfun í rökræðum og almennilegum samskiptaháttum í hópum, meðal barna, unglinga, háskólanema, kennara, háskólamanna o.s.frv. Hagnýt heimspeki getur orðið hluti slíkrar viðleitni, en jafnframt held ég að það þurfi líka að hugsa um einhverjir leiðir til að fólk nái tökum á eigin egói og nái að skilja það eftir við dyr fundarsalarins, eða að hemja bólgutendensa þess og ofurviðkvæmni meðan á fundum stendur. Benda má t.d. á búddíska hugleiðslu og andlegar æfingar stóumanna í þessu samhengi, algjörlega djóklaust.

Thursday, October 25, 2012

Spuni um grunnþætti

Sat í dag með fullt af áhugasömu og skemmtilegu fólki á smá vinnustofu um grunnþættina. Nú hef ég hafið vinnu við mastersverkefni um lýðræði og er þess vegna hálfgerður lýðræðisnörd - en almennt séð sýnist mér að í grunnþáttapælingunni almennt sé fólgið margt af því sem ég myndi vilja skrifa upp á sem mína grunn menntahugsjón. Þar kemur inn t.d. pælingin um óbeint nám, um að nemandinn sé í forgrunni, þverfagleg vinnubrögð og vinnu kennarans og skólafólks sem skapandi listrænt viðfangsefni.

Ég rek mig samt á það og veit að margir félagar mínir í stéttinni eru einfaldlega ekki á þessari línu. Kennslugreinin og innihald hennar er fyrir stórum hluta kennara slík þungamiðja starfsvitundar þeirra að ég hugsa að grunnþættirnir eigi engan séns. Þá má líta á það að sköpun eða lýðræði sem eitthvað sem mögulega gæti flotið með, og þá hugsanlega að skaðlausu; en það skiptir engu máli samanborið við þekkingu á diffrun í viðtengingarhætti þátíðar á þörungagenum.

Ég ætla heldur ekki að halda því fram að þekking á frumum, sagnmyndum og stærðfræðiaðferðum sé ekki mikilvæg; en hins vegar held ég að sú fremur einhliða nálgun á alla þekkingu, kennslu og námsmat sem þekkingu og umsýslu harðra þekkingarbúta sé úr sér gengin og grunnþættirnir geti verið vegvísir inn í nýjan skólaheim.

Tuesday, September 18, 2012

sjálfsmyndir kennara

bóndi, leikskólakennari, sérfræðingur í velferðarráðuneytinu, vísindamaður hjá CERN, afleiðugreinir hjá Íslandsbanka, grunnskólakennari, kafari, leyniskytta, bakari, hjúkrunarfræðingur, einræðisherra, listamaður, forritari, svæfingalæknir....

Hvaða stétt er það sem við framhaldsskólakennarar tengjum okkur helst við í sjálfsmynd okkar? Hef heyrt því fleygt að mörgum framhaldsskólakennurum finnst þeir ekki eiga samleið með t.d. leikskólakennurum, og þá eru þeir sennilega frekar með hugann hjá félögum okkar hjá CERN, velferðarráðuneytinu (á það ekki annars að vera með litlum?) og Íslandsbanka.

Ég persónulega er frekar væmin týpa og lít á grunnskóla- og leikskólakennara sem þær stéttir sem ég eigi helst samleið með: og að svo eigum við öll saman að öllu leyti helst að finna okkur samleið með listamanninum; skólastarf er að mínu mati skapandi starf og mér finnst það gott og notalegt að hugsa um það þannig.

Reyndar finnst mér samt bóndatenginin líka áhugaverð; og í þeirri líkingu er þá líklega litið á nemendur sem búfénað..... (manni þykir vænt um greyin en sendir þau samt í sláturhúsið).

Sunday, September 16, 2012

upplifun, innlifun og virkni

Ég er með það á heilanum um þessar mundir (og hef haft um skeið) að nýta spunaspil i kennslu og hef feimnislega verið að prófa mig áfram með það. Þessi pæling tengist því sem mér finnst mikilvægt það er að auka virkni nemenda og þátttöku í eigin námi. Margvíslegar og ýmsar aðferðir aðrar eru til til að gera þetta, mikil ósköp, og ég hef prófað margt í þeim efnum, stundum með góðum árangri, stundum síðri.

Ég held að virkni hljóti að einhverju leyti að felast í upplifun og innlifun. Ég er þess nokkuð viss að tungumálanám verður best við þær aðstæður að maður upplifi eitthvað og sökkvi sér í það og orðin og málið tengjast inn í net upplifunarinnar og mynda síðan þekkingu og færni til frambúðar. Próf og eyðufyllingar gera þetta kannski fyrir suma, en ekki alla.

Ég hef þá skoðun að samræður, sögur og leikir séu besti farvegur sem í boði er. Spunaspilin hafa þann dásamlega eiginleika að vera þetta allt í senn. En eins og þau liggja fyrir hafa þau ýmsa ágalla - áskorunin er að sníða þá af og skapa kröftugt, frumlegt og nýstárlegt tæki til náms; upplifunar, innlifunar og virkni!

Thursday, August 30, 2012

Sudbury Valley skólarnir

Þegar velt er upp valkostum og möguleikum varðandi nýjungar og breytingar í menntamálum og skólum er mikilvægt að skoða raunveruleg dæmi um starf sem er öðruvísi. Á Íslandi eru mest áberandi skólarnir sem starfa utan alfaraleiðar (ef svo má að orði komast) Waldorf skólarnir og svo Hjallastefnuskólarnir. Margt er áhugavert og virðingarvert í báðum þessum stefnum. Eitt atriði hefur þó alltaf farið í taugarnar á mér, og það er þessi hugmynd að banna leikföng. Svona breið og skýr höft yfir eitthvað ákveðið svið mannlegrar tilveru finnst mér afar dularfull og á bágt með að skilja þau rök sem þó eru sett fram hér. Þar sem þetta eru ekki fræðileg skrif ætla ég ekki að taka þetta atriði lengra hér - hefði þó gaman af athugasemdum og umræðum um þetta sérkennilega leikfangabann....

Í rannsóknum mínum og pælingum um víðnetið um fjölbreytilega og ólíka starfshætti þá virðist mér að ein hreyfing, byggð á ákveðnum skóla, sé einna áhugaverðust og áhrifaríkust. Þetta eru Sudbury Valley skólarnir. Slíkir skólar eru starfandi víða um heim og fræðast má um þá í þessu myndbandi og myndböndunum sem á eftir koma. Þessir skólar eru svokallaðir lýðræðisskólar (democratic schools) og byggja í grunninn á algjöru lýðræði og frelsi. Það er ekkert námsefni, engin stundaskrá, engin bjalla, engir kennarar.... bara hús, aðstaða, hópur nemenda og starfsmanna. Ef nemendur vilja sofa - þá sofa þeir - ef þeir vilja læra stærðfræði þá mynda þeir hóp og því er reddað, ef þeir vilja spila tölvuspil þá gera þeir það. Ákvarðinir um öll mál eru tekin á sameiningu, og um öll vafamál er dæmt í rétti sem skipaður er nemendum og starfsmönnum til jafns. Engin próf, einingar eða neitt slíkt. Þegar nemandi lýkur skóla þá semur hann kynningu um það sem hann hefur fengist við árin í skólanum og kynnir fyrir nefnd annarra nemenda og starfsmanna. Einn nemandi hefur í sögu skólans verið felldur við slíka athöfn.

Þessir skólar eru áhugaverðir fyrir að vera mjög skýr valkostur og fyrir það að þeir virðast vera í hægri sókn. Ekki er hægt að fullyrða um nákvæmlega hversu snjallt slíkt fyrirkomulag væri almennt í skólum, en hins vegar er spurning hvort hægt væri að finna milliveg. Líklega eru skólar víða hérna á Íslandi einmitt að leita sliks millivegar, og ég er á þvi að þar sem við erum komin með grunnstoð í námskrá sem heitir lýðræði og mannréttindi þurfum við að fara að taka skref í þessar áttir og spá í kost og löst á þessum aðferðum. Það er engin leið að yppta öxlum og hafa enga skoðun, þetta eru róttækir og allt allt öðruvísi skólar og lífshættir en við eigum að venjast - og sú bjartsýna og hlýja skoðun á eðli mannsins sem slíkt starf byggir á höfðar mjög sterkt til mín. Og leikföng eru ekki bönnuð (ekki heldur Facebook ef út í það er farið..... )

Tuesday, August 14, 2012

Róttæk kennslufræði, með lókal og mjög torskilinni lokasetningu

Jæja, sumarfríi lokið og kennarinn og menntavísindanemandinn ég kominn í gang .... hóstandi mögulega.... ég fór í gær á skemmtilega vinnustofu í Róttæka sumarháskólanum um róttæka kennslufræði hjá Ingólfi Gíslasyni. Mikið grín og gaman (ekki beint) - en vissulega áhugavert og upplýsandi, bæði fyrir það sem Ingólfur sagði (og sagði ekki) og líka fyrir viðbrögð og þátttöku áheyranda. Af þeim lærði ég að
-róttæklingar hafa skemmtilega sýn á köflum
-latent íhaldsemi skólafólks er ótrúlega lífseig
-róttæklingar eru sumir hverjir afskaplega illa jarðtengdir

...galli var á fundinum, að mati lokaspyrjenda, að Ingólfur bauð ekki upp á lausnir en bara spurningar. Ég er nú að vísu ekki alveg sammála, eða, öllu heldur, tel ég að það kom fram mjög konkret og ákveðin hugmynd um róttækni og hvernig hún getur birst í afstöðu til menntunar. Ég hugsa að það sem sé róttækt varðandi kennslufræði skilið sem e.k. pælingar um kennsluaðferðir o.s.frv. sé að bjóða ekki upp á einhverjar töfralausnir og höfða til sjálfræðis kennara og nemenda. En, líkt og Ingólfur sagði margoft þá getur ákveðin fræðileg dýpt veitt ákveðna frelsun eða sýn. Hans dæmi var aðallega algebra, en ég held að kenningar úr félagsvísindum og heimspeki sem hann var líka að beita geri nefnilega nákvæmlega það - og þannig varð þessi vinnustofa, að mínu mati, óvenjulegt dæmi (afar) í því að hún gerði það sem hún boðaði.

Skilst þetta kannski illa?

Hmm.....

Jæja, hugtök eins og 'táknrænn auður' og 'firring' eru ekki auðveld frekar en (.........) úr algebrunni, en þegar þau verða töm þá hjálpa þau okkur að skilja okkur sjálf og samfélagið - og þegar best lætur þá setja þau okkur í þá stöðu að geta gagnrýnt þau sjálf. Þannig er það t.d. ekki augljóst að besta leið þess sem vill vera róttækur og er kennari að kasta allri hefðbundinni kennslu og prófum fyrir róða - t.d. algebru - heldur þarf hann að vinna með það. Hjálpa nemendum sínum til að komast áfram í heiminum eins og hann er.... og í þessu þá virkar það þannig að staða kennara sem er með nemendur sem ströggla og eru úr lágstétt þá er það hans verkefni að efla táknrænan auð þeirra (Stand and Deliver) en verkefni hins kennarans (mín t.d.) er að gera forréttindanemendur gagnrýna á táknrænan auð þeirra og efla þau á öðrum sviðum .... því miður er það kannski þannig að þessu er oft þveröfugt farið....

Hmmm.... svo fannst mér línan um að próf væru leið til að breiða yfir og gera mismunun fólks náttúrulega alveg brilljant.

Ég átta mig á að þetta kann að virðast torskilið. Bendi svo á að Feyerabend vitnar líka í Lenín fremst í Against Method - raunar vitnar hann í spássíukrot Leníns í eintaki hans af Sögu Mannsandans eftir Hegel.

Sunday, May 6, 2012

Guðrún Halldórsdóttir

Guðrún Halldórsdóttir, sú stórmerkilega skólamanneskja er dáin. Ég vann af og á hjá henni í all mörg ár í Námsflokkunum og verður hún að teljast stór áhrifavaldur í afstöðu minni til menntunar og lífsins almennt. Skrifborð Guðrúnar þar sem rétt glitti í hana gegnum alskyns skjalabunka, matarumbúðir (og fyrstu ár reykjarmökk, sem þó stafaði hvorki frá henni né mér) og var heili og hjarta skólans í senn. Guðrún gat verið að rýna í skjöl og pæla í einhverjum ráðum til að eiga við hina aðskildustu embættisaðila þegar hún skyndilega bryddaði upp á umræðum um tilgang lífsins, gildi ólíkra uppeldis- eða matreiðsluaðferða; og samstundis urðu allir viðstaddir (skrifstofufólk, kennarar, nemendur, húsverðir) þátttakendur í einhverjum stórmerkilegum samræðum (sem lauk svo jafnskyndilega og þær hófust án niðurstöðu, enda niðurstöður ofmetnar).

Guðrún var mikilvirkur jafnréttissinni og óbilandi í trú sinni á réttlátara þjóðfélag, hvort sem það tengdist jafnrétti kynjanna eða réttindum verkafólks, og ég held að saga hennar geti verið mikill innblástur öllum þeim sem glíma við skrifblindu, hún lét það smávandamál sko aldeilis ekki stöðva sig!

Það sem upp úr stendur í minningum mínum af Námsflokkunum er sú ótrúlega og fjölbreytilega reynsla af magnaðri mannlífsflóru þar sem allir voru jafnir (nema að vísu þá réð Guðrún nú, svona mestan partinn .... ) og allir voru með það á hreinu að starfið sem við unnum var gott starf (þó okkur sumum fyndist kannski að stundum mætti hagræða einu og öðru í leiðunum sem valdar voru.... ) - þar sem aldrei var langt í hláturinn og þar sem maður gat aldrei verið alveg viss um hvað kæmi næst.

Heimurinn er alveg örugglega betri staður fyrir það að hafa átt Guðrúnu, ég er alveg örugglega betri maður fyrir að hafa verið svo lánsamur að kynnast henni. Blessuð sé minning hennar.

Sunday, April 29, 2012

Hugur ræður hálfum sigri 1


Er nú í árlegri heimsókn minni á ráðstefnu Miðstöðvar um skólaþróun við Háskólann á Akureyri,  sem að þessu sinni ber titilinn 'Hugurinn ræður hálfum sigri'. Alltaf mjög fróðlegt og skemmtilegt að koma, og merkilegt hvað það koma fáir úr framhaldsskólanum....  set líka fram minn venjulega fyrirvara að þetta er hrátt en hresst, og athygli mín kann að hafa farið aðeins upp og niður gegnum daginn, líkt og gerist með nemendur og aðra sem innbyrða mikinn fróðleik á stuttum tíma.... Hér eru semsé smá komment á aðalfyrirlestrana og málstofurnar sem ég sótti.

The dynamic approach to school improvement. Dr. Leonidas Kyriakides (aðal)

Flott á þessum ráðstefnum að fá alltaf öfluga erlenda fræðimenn til að halda aðalererindi. Hér er augljóslega á ferðinni mikill lurkur á þessu sviði, en hann er með mjög bombastískt og flókið módel sem segir samt fremur augljósan hlut.  Vekur mig mjög til umhugsunar um tengsl og virkni megindlegra og eigindlegra aðferða. Flóknar íhlutunar og sambanburðarrannsóknir til að komast að niðurstöðum um að gott sé að byggja endurmenntun kennara á rannsóknum og þekkingu á því hvað virkar best í skólastarfi. Þó er hann greinilega í miklum svona málamiðlunarpælingum og samþættingu, og þá verður þetta mjög svona hegelskt og yfirþyrmandi. Hann og félagar hans hafa hannað flokkunarkerfi fyrir kennara.  ég hef þó miklar efasemdir um þetta; veit ekki hvernig ég myndi fíla að fara í einhverja endurmenntun sem 'level 1' kennari (skv. Kyriakides eru fimm stig). Minnir þó skemmtilega á Dungeons and Dragons; en í kennslu er ég náttúrulega komin á Epic Tier.... Að gamni slepptu finnst mér keimur af því að hér sé á ferðinni svona vald sérfræðingana og meðferð á kennurum sem e.k. rottum í búri; ég hef meiri trú á valdeflingu kennara, starfendarannsóknum, lýðræði, dreifræði og svoleiðis nokkru...

Söguaðferðin María Steingrímsdóttir (málstofa)

Storyline aðferðin gengur út á að velja ákveðið þema sem myndar ákveðna sögu sem nemendur vinna svo verkefni út frá; þannig að verkefnið myndar ferli eins og sögu. Áherslan töluverð á ferlið, sjálfstæði nemenda og þverfaglegheit. Hugsanlega er ekkert algjörlega frumlegt í þessu, en hér er um að ræða aðferð og skóla sem hefur náð nokkurri fótfestu á Íslandi, þó aðallega á yngri stigum. Rökstuðningur Maríu gekk út á að sýna hvernig útkoma aðferðarinnar fellur að kenningum um virkt nám, og jafnframt að grunnstoðum nýrra menntalaga og námskráa. Við vorum frekar fá að hlusta, og að verulegu leyti var hún 'preaching to the converted' - mér fannst þetta mjög fróðlegt og svo finn ég að í þessu alls kyns tengingar við mínar eigin pælingar um spunaspilin....

http://www.storyline-scotland.com/whatisstoryline.html

Leiklistarkennsla í FG Bjarni Snæbjörnsson (málstofa)

Ótrúlega spennandi verkefni, mikil og áhugaverð vinna með grunnþættina, ekki síst lýðræðið. Bjarni heífur öll einkenni frumkvöðuls í skólaþróun, og greinilegt að hann hefur fengið góðan stuðning í FG. Hann lýsti efri áföngum í leiklistinni þar sem nemendur fá frjálsar hendur til að búa til sitt eigið leikverk í anda 'devised theatre' ... ég sé náttúrulega líka hérna alls konar tengingar við spunaspilapælinguna. Mér finnst svo almennt og af mikilli alvöru að innreið fjölbreyttara fólks og öðruvísi sýnar sé eitthvað sem við í framhaldsskólunum þurfum að fagna og vinna með, ölllum til heilla!

Lýðræðisleg augnablik Dr Anna Magnea Hreinðiðsdóttir (aðal)

Rödd nemenda mikilvæg á öllum skólastigum og þarf að fá að heyrast, hér hefðu mátt vera meira af góðum dæmum um t.d. lýðræði í verki í leikskólum. Hef á tilfinningunni að lýðræði sé mun meira í orði en á borði alls staðar í skólakerfinu. Mér finnst samt grunnstefið um að þróun verði með safni augnablika sem við byggjum á.... Ég missti aðeins einbeitinguna í þessum fyrirlestri en var sammála flestu sem fram kom, fannst kannski bara ekki mikið nýtt í því.... lærði þó orðið að vera 'hlaðkaldur' - það er að vera nokkuð kuldalegur í viðmóti við fyrstu kynni....

Einstaklingsmiðun í Skólastarfi - Birna María Sveinbjörnsdóttir (málstofa)

Einstaklingsmiðun meiri í orði en á borði. Áætlunartímar þar sem nemendum er sagt hvað á að gera, með örlitlum mun milli einstaklinga. Einstaklingsmiðun á að vera heildræn skuldbinding um samvinnu, samræðu, ígrundum og íhlutun allra sem að skólastarfinu koma og á við alla nemendur og kennara og starfsfólk. Nemendur kennara sem hafa einstaklingsmiðun á valdi sínu ná betri árangri, skv. rannsóknum sem Birna nefndi. Nota pælingar um Svæði hins mögulega þroska fyrir kennara jafnt sem nemendur. Vinnur útfrá kenningum Kyriakides, og maður nær ákveðnu sambandi við þær hér. Þessar pælingar um að kennarar séu á ákveðnum stigum finnst mér samt enn virka um margt dúbíus og stór hætt að hér sé aðeins verið að tala niður til kennara, ég veit ekki....

Skólinn sem lærdómssamfélag Dr. Anna Kristín Sigurðardóttir (málstofa)

Pælingar út frá Senge um hvernig skólar geti orðið að Learning Community. Mjög áhugavert að mörgu leyti, en það er þannig að traust, samvinna og færni kennara í að eiga í gagnrýnu samtali hefur forspárgildi um árangur nemenda. Vakti mann til umhugsunar um hvernig samtöl fara fram í manns eigin starfi, og ég reyndar verð að segja að mér finnst við ágæt í minni deild, þó finnst mér reyndar að það sé þannig að við séum gagnrýnin og getum náð að miðla málum, en, fólk stendur á ákveðnum grunnskoðunum sem eru óhagganlegar - þannig að lærdómssamfélagið nær kannski botni í því að einstaklingar komast bara ákveðið langt frá sínum eigin grunn sjónarmiðum. Annað sem er ákveðin írónía í öllum þessum fræðum: hvað ef lærdómssamfélagið velur að fara í áttir sem eru allt aðrar en akademían telur besta - að taka upp harðkjarna einhliða miðlun, harðar refsingar á nemendum eða eitthvað - er sjálfgefið að gagnrýnin samræða í hóp leiði alltaf til 'góðra niðurstaðna'? Sami vandi finnst mér innbyggður í kenningum starfendarannsókna..... Reyndar, fyrst ég er kominn af stað er kannski líka í þessum pælingum hjá Önnu og Birnu mjög rík áhersla á kennarasjónarhornið en minni á nemendasjónarhornið, og hugsanlega er það líka veikleiki í pælingum Kyriakides... bara pæling...

Ingvar Sigurgeisson et al (málstofa) 


Fyrirlestur sem byggði á gögnum úr ótrúlega yfirgripsmikilli og áhugaverðri úttekt á grunnskólanum á Íslandi. Hér er hugað að muninum á kennurum í skólum sem kenna í opnum rýmum og lokuðum. Áhugavert hvernig þessi aðferðafræði sem tengist opnun hefur ekki náð neinni fótfestu í framhaldsskólum, og finnst eflaust flestum kollegum mínum það ágætt... það er samt mjög athyglisvert, sbr. t.d. storyline hvernig framhaldsskólinn hefur verið nánast ónæmur fyrir ýmsum nýjungum í kennsluháttum, aftur finnst mörgum það ágætt ég læt vera að taka mjög sterka afstöðu núna.... Annað sem er náttúrulega líka merkilegt er að meðan mikið er til af rannsóknum og gögnum um grunnskólann þá er það sorglega lítið sem er hægt að finna um grunnskólann. Ég er t.d. að pæla í að þyrfti að gera upp við áfangakerfið, en ég veit ekki til þess að það sem slíkt hafi mikið verið rannsakað, og þá tel ég það mikilvægt að nýju skólanámskrárnar verið ekki bara gagnrýnislaus endurvörpun á áfangakerfinu eins og það er í dag.... Mynduðust nokkuð skemmtilegar umræður, og það er augljóst að þessi rannsókn er gríðarlega metnaðarfull og verður hægt að gera ótrúlega mikið með þetta gagnasafn!  ...


Tekist á við 21. öldina Hildur Hauksdóttir MA (aðal)

Áhugavert að pæla í skólaþróuninni, er framhaldsskólinn að skríða inn í 21. öldina? Hér var á ferðinni skemmtileg hugleiðing sem átti vel við mig þar sem Hildur er líka enskukennari og er í skóla sem hefur átt að mörgu leyti samleið með Versló, en er kominn lengra í að aðlaga sig að nýju námskránni. Ólíkt mörgum kollega vorra nálgaðist hún þetta jákvætt, en af raunsæi og lýsti því vel hvernig það er skrýtið fyrir kennara sem vildu bara fara að kenna um hvað Emily Dickinson væri frábær að takast á við lýðræði, sjálfbærni og sköpun.... Opnar og einlægar pælingar.... þau eru að þróa áfanga þar sem þau ætla að nálgast umfjöllun um Ísland á ensku, pæling sem við erum líka í, svo kjörin grundvöllur fyrir samráð og samstarf þarna!

Niðurstaða (bara ég)


Mér finnst alltaf dáldið endasleppar þessar ráðstefnur, en skil að það sé ekki hægt að splæsa í endalausa kokteila... Ég hef samt alltaf dálítið gaman af því að vera svona einn og vera svona aðeins eins og útundan; svona smá 'outsider' fílingur í því .... hmmm.... Ég er hins vegar alveg sannfærður um að þið yrði stéttinni til mikils framdráttar ef við yrðum duglegri að sækja svona fundi, þing og ráðstefnur. Legg ég þá til að allir hafi einu skyndiprófi færra, fari aðeins hraðar yfir ritgerðirnar og losi tíma til að sinna þessu: ég geri það, og sjá .... ég er ekki að segja að ég sé besti kennari í heimi (ekki ef miðað er við fjölda skyndiprófa og nákvæmni í yfirferð ritgerða) - en ég hef fullan haus af hugmyndum og pælingum og kem þeim oft í framkvæmd; vegna þess að ég ríf mig reglulega upp og skelli mér á fyrirlestra og ráðstefnur, svo les ég líka allan fjandan og er virkur á http://www.facebook.com/groups/406845292664977/ .... hlakka til að sjá fleiri úr framhaldsskólakennarahópnum á næsta svona giggi....

og á morgun þá er ég á leiðinni á heimsókn í Menntaskólann á Tröllaskaga og lofa bloggi um það næst!

Saturday, April 7, 2012

Lærdómur: kerfisbundið ferli eða eitthvað sem gerist meðan þú ert að bauka við annað?

Þessi póstur er íslensk útgáfa á smá pistli á enska blogginu mínu, Incidental Learning. Ég hef undanfarið mikið verið að pæla í lýðræðislegum skólum, og einkum Sudbury Valley School, skemmtileg innleiðing í hvað það snýst um má sjá hér í vídeóinu um nemandann sem svaf.

Þegar Bret Mckenzie tók við óskarsverðlaunum fyrir besta lagið í kvikmynd, "Man or Muppet", þakkaði hann foreldrum sínum sérstaklega fyrir að hafa aldrei vesenast í honum með að 'fá sér almennilega vinnu'. Chris Kubasik, leikjahöfundur, tileinkar skáldsögu sína Changeling föður sínum, 'who kept the house well stocked with books.'  Ég ólst upp innan um bókastafla, tímaritsgreinar, Þjóðviljann (helgarblaðið var frábært) og ég leitaði að vild í þessum fjársjóðum og lærði heil reiðinnar býsn, óþvingað og af eigin áhuga. Ég man sérstaklega eftir að horfa á bókahillurnar og hugleiða titla eins og Ég læt allt fjúka, og Vindur, vindur vinur minn (bækur sem ég svo las reyndar ekki).

Nú alast ekki allir upp við aðstæður eins og ég, McKenzie og Kubasik, þess vegna er hlutverk skólanna til að jafna stöðuna svo mikilvægt. Þetta er ein af ástæðum þess að allt tal um að það þurfi að sinna 'bráðgerum' börnum eitthvað sérstaklega hefur aldrei hljómað sannfærandi í mín eyru - þessir bráðgeru eru með nóg að bauka og pæla og pluma sig. Það sem skólinn þarf að gera er að veita öllum tækifæri til að bauka og pæla og finna sig. Kennarar eiga að vera alskonar fólk með alskonar þekkingu sem krakkarnir eiga að hafa aðgang að, en þeir eiga ekki endilega stöðugt að þröngva sér og sínu upp á þá. Ég held að þó að bara ákveðin hluti af skólastarfi væri haft í anda lýðræðisskólanna myndu opnast möguleikar fyrir krakka til að finna sig og ná að móta sig, sem tónlistarmenn, leikja- og fantasíuhöfundar, eða sem fyrsta flokks íþróttamenn og bloggarar eins og ég.... hmmm....

Hér er náttúrulega margt sem þarf að skoða, en þröng og skilyrðislaus skipting eftir aldri er óeðlileg, takmarkaðir möguleikar til vals, stífar og ósveigjanlegar stundatöflur og of litlir möguleikar til að velja.

Ég ætla ekki að halda því fram að maður læri allt svona. Ég vil að fóllk fari í stífa þjálfun og taki próf í að keyra bíla, fljúga flugvélum og öllu slíku. Misskilningurinn sem hefur átt sér stað er að halda að allur lærdómur eigi sér stað með sama hætti og lúti sömu lögmálum. Í mínum greinum, ensku og heimspeki held ég að það sé alveg fráleitt að svo sé, þekkingin og færnin byggist atvikskennt upp yfir langan tíma og verður til í ástundun og er knúin áfram af áhuga.


Verkefni: Í textanum er ein staðreyndavilla. Finnið hana og rökstyðjið svarið. Einungis verður farið yfir svör í kommentakerfi Blogspot. 

Thursday, March 15, 2012

menntun og félagsmiðlar

Ég hef áður tjáð mig um fjarnám og nauðsyn þess að kennari samtímans sé netverji. Ég vil í þessum pósti fagna frumkvæði Ægis Karls Ægissonar sem fékk mig með sér í að ræsa síðuna 'Framhaldsskólakennarinn' á Facebook. Ég geri mér grein fyrir því að margt er gagnrýnivert við félagsmiðla eins og Facebook, en þó hef ég þá skoðun að möguleikarnir sem þeir bjóða eru bókstaflega ótrúlegir. Nú hef ég undanfarið, eins og einhverjir sem fylgjast með hér á blogginu vita, verið að garfa í að læra og komast af stað í Spunaspilum. Nánast allur lærdómur og upplýsingar sem ég hef aflað mér á því sviði hefur farið í gegnum Facebook. Ég hef náð sambandi við reynda Spunaspilara á síðu þeirra (og þau hafa tekið mér alveg ótrúlega vel!) og þannig hef ég náð að læra og skipuleggja viðburði - og þetta er bara rétt að byrja! Ég á mér ákveðna sýn varðandi tengsl samræðunnar og spunaspilanna, en það kemur seinna....

Nú á fyrstu dögum Framhaldsskólakennarans hafa yfir hundrað manns gengið til liðs við okkur, og þegar er hafin þar lífleg umræða um kennsluaðferðir og komnir inn linkar um áhugaverð málefni og viðburði. Þarna geta kennarar sem eru einyrkjar í litlum skólum fundið stuðning, og við sem búum við að þurfa að ræða sömu málin við sama fólkið aftur og aftur og aftur fundið ferska vinda blása....

Ég held að það sé ekki svo að Facebook dragi úr félagslegri virkni og höfði til lágra hvata, heldur býðst í þessum nýja heimi tengsla möguleiki á að læra og kynnast og búa til betri heim. Ég bendi svo fólki á að Twitter hefur líka marga skemmtilega eiginleika og mæli með því að menn prófi það næst....


Saturday, March 10, 2012

kennarar og nemendur og erfðasyndin


Ég held mikið upp á nemendur mína, og hef átt því láni að fagna að kenna miklum fjölda frábærra nemenda, aðallega í Versló, en svo hef ég líka farið í aðra skóla og rekist þar á allt öðruvísi nemendur og þótt það mjög merkileg reynsla. Ég hef líka starfað með ótrúlega fjölbreyttum hópi í fjarnámi, og einstaka nemendur þar hafa markerað sig sem alveg einstaklega eftirminnilegir. Nemendur fara oftlega í taugarnar á mér, með ýmiskonar hyskni og áhugaleysi, en það er hluti af lífinu, og lít á það sem áskorun fyrir mig, skólann og svo líka nemendurna sjálfa að fækka þessum tilvikum - og mín reynsla er að með árunum þá fækkar þeim vissulega .... kannski er ég að vaxa í starfi eða eitthvað svoleiðis væmið....

Ég hef enga þolinmæði gagnvart kollegum mínum sem eru endalaust að skammast og óskapast yfir 'unga fólkinu í dag'. Mér finnst að kennarar sem eiga ekkert eiga nema neikvæðni til i garð nemenda sinna eigi að fá sér annað starf: e.t.v. á elliheimili þar sem það gæti óskapast með gamla fólkinu yfir því hvað allt hafi verið frábært í gamla daga. Annað skylt vandamál er það hvernig sumir háæruverðugir félagar mínir sjá ekki annað en svindl í hverju horni. Svindl er náttúrulega ekki gott - en það kemur aðalverkefni okkar - að mennta og hjálpa fólki að þroskast og dafna fremur lítið við. Kollegar með mikinn áhuga á svindli og slíkum rannsóknum bendi ég á starf við endurskoðun, eða jafnvel iðnaðarnjósnir.

Ég aðhyllist jákvæðan skilning á manneskjunni, en geng ekki út frá því að nemendur séu útsmoginn svindlandi illmenni sem ég berst við eins og ég mynd berjast við skrímsli í tölvuspili. Ég held að kristinn arfleifð erfðasyndarinnar sé ljóslifandi í vitund sumra kennara, og ég held að sú arfleifð sé skaðleg - og ég held að hún smiti yfir í vitund nemenda sem fara þá að akta sig sem útsmoginn svindlandi illmenni....

Just sayin'.

Sunday, March 4, 2012

Firrtir á Facebook - nemendur nútímans

Í liðinni viku var viðtal við einn af mínum helstu mentorum í menntamálum, Guðrúnu Geirsdóttur komst í umræðuna í síðustu viku vegna viðtals í morgunútvarpi í tilefni fyrirlesturs sem hún hélt um Háskólanema nútímans. Voru margir kollegar mínir kampakátir yfir þessu og var innihald málflutnings hennar túlkaðar á þá vegu að nemendur nú til dags væru óalandi, yfirborðskenndir, dekraðir og grunnhyggnir. Lykilatriði í skilningi (margra) kennara á nemendum sínum er að þeir séu umtalsvert hysknari (er það ekki örugglega með ypsilon?) en nemendur voru fyrir bara örfáum árum síðan.

Ég hlustaði á viðtalið, missti því miður af fyrirlestrinum, en Guðrún sendi mér svo tengil á grein eftir fræðikonuna Sarah J. Mann sem má lesa hér og fékk ég þannig endanlega staðfestingu á að þetta var nú kannski heldur einhliða túlkun á máli hennar - og að þetta er miklu dýpri (og þar af leiðandi áhugaverðari) pæling en frumtúlkun benti til.

Mann leggur hugmyndina um firringu til grundvallar greiningar á veruleika háskólanema í grunnnámi, og sækir skilning sinn á hugtakinu jafnt til sálgreiningar og marxisma. Hún er ekki að pæla í Facebook, enda er greinin frá 2001, og ljóst má vera að pælingar um nemendur á Facebook á fyrirlestrum og vælandi um glærur á netsíður áfanga hlýtur að vera einkenni á einhverju djúpstæðara. Það þarf ekki að skoða þessi mál lengi til að sjá að þau einkenni sem lýst er hjá háskólanemum eiga vel við um framhaldsskólanema líka - sumt í jafnvel enn ríkari mæli, annað kannski síður.

Mér sýnist að í greiningu Mann og tillögum hennar að lausnum sé gríðarlega spennandi hráefni sem ég þarf að melta og greina betur. Hér vil ég nefna hugmyndir hennar um nálgun nemenda á nám sitt. Í stað þess að hafa e.k. heildræna og djúpa nálgun á nám sitt þá hafi nemendur tileinkað sér yfirborðskennda nálgun (áherslu á staðreyndir og utanaðbókarlærdóm) og taktíska nálgun (áherslu á að ná því sem væri á prófum til að hámarka einkunnir). Afleiðingin af þessu er að þeir verða firrtir veruleika námsins, þeir skauta framhjá því að nálgast hlutina persónulega og forðast að fara á dýptina. Ég myndi vilja gerast nokkuð grófur og varpa því fram að kannski gildi eitthvað svipað um hluta af kennurum, og þá kannski fremur í framhaldsskólum en háskólum. Þá erum við með þá stöðu að kennarar eru firrtir og svo nemendur enn firrtari.... bara pæling.....Framhaldsskólinn líður líka fyrir að vera litla systkini háskólanna, þannig að allt sem þar gerist vísar alltaf fram á við og skiptir í raun ekki máli nema sem inngangsmiði í himnaríki háskólann - firringin er þannig í innbyggð í allt okkar starf....

Firring af þessu tagi leiðir til óöryggis og kulnunar hjá kennurum - og birtist í áhuga- og agaleysi hjá nemendum. Lausnin felst ekki í fleiri boðum og bönnum heldur í grundvallandi hugarfarsbreytingu - og líkt og Mann bendir á þá hljóta allar raunverulegar lausnir á þessu vandamáli að vera rótttækar.

Við spáum í þetta....

Sunday, February 26, 2012

Bugsy Malone

Ég fór með fjölskyldunni á Nemó sýningu Versló í ár Bugsy Malone í gær. Eldri dóttir mín hefur verið með tónlistina af YouTube í gangi stanslaust í allan dag, og við vorum öll mjög hrifin. Ég ætla ekki að leggja í einhverjar rosalegar pælingar um þetta, heldur bara þakka fyrir mig og votta krökkunum virðingu mína fyrir þá miklu vinnu sem liggur í þessu, bæði í því að gera sýninguna og líka á árunum sem á undan fara, því svona gerist ekki af sjálfu sér. Mér fannst líka textinn vel þýddur og fluttur, það var gætt vel að jafnvægi í hlutverkum varðandi kynin (áhugavert að skúrkurinn var í anda James Bond illmenna; bækluð kona í hjólastól.... ). Frábær skemmtun og síðasti séns á þriðjudagskvöld, miðar seldir á midi.is!

Náttúrufræðibrautarkrútt

Nú vil ég strax taka það fram að sumir bestu vinir mínir, og margir nánir ættingjar  (pabbi minn, litla systir mín o.fl.) starfa á sviði raunvísinda. Ég ber mikla virðingu fyrir vísindum og hvítum sloppum, lotukerfum, svartholum, erfðamengjum, diffrun og efnajöfnun.

En.

Mér finnst margt annað skipta miklu máli og ég átta mig ekki alveg á því af hverju meirihluti menntaskólanema er á náttúrufræðibraut. Ég skil heldur ekki af hverju meirilhluti framhaldsskólanema þarf að taka spænsku sem þriðja mál, en það er önnur saga.

En.

Nemandi minn í heimspeki (sem er ekki á náttúrufræðibraut) kynnti mig fyrir hugtakinu 'náttúrufræðibrautarkrútt' nýverið. Slíkt krútt getur lært um diffrun og efnajöfnun fyrir próf og skilað nokkuð góðum árangri þar, en berist umræður að þjóðfélagsmálum, menningarmálum, bókmenntum eða öðru slíku þá verður viðkomandi eitt stórt spurningamerki og missir fljótlega áhugann...

Verandi málabrautarmaður í grunninn þá hafði ég gaman af þessu. Náttúrufræðibrautarnemarnir á svæðinu svöruðu fyrir sig með því að kalla félagsfræðibrautina 'rennibraut' og túlki hver það fyrir sig.

Kjarni málsins sem ég vil draga fram er að til þess að við höldum uppi fjölbreyttri og skilvirkri menntun og höldum menningunni og lýðræðinu gangandi dugar ekki að hafa mikinn meirihluta ungs fólks á náttúrufræðibrautum. Og það sem er skuggalegt er að svo skortir fólk til að halda áfram í raungreinum.... samt eru allir á þessum brautum af því að þau vilja 'halda öllu opnu' - þetta er eiginlega hálf öfugsnúið; krakkarnir velja braut svo þau geti farið inn á svið verkfræði og raunvísinda en raunin er svo sú að mjög fáir velja þá leið í reynd, en hafa í staðinn látið sér leiðast í framhaldsskóla (og lært spænsku) í stað þess að sökkva sér í að pæla í menningu, sögu og bókmenntum....

Ég held að hér sé mál sem við þurfum að hugleiða alvarlega. Ég vil jafnvel ganga svo langt að segja að þessi ofuráhersla á að allir taki náttúrufræðibraut sé einkenni á meinsemd sem hefur átt sér margar aðrar og skuggalegri birtingarmyndir.

Wednesday, February 22, 2012

Talað mál og tölvuöld

Ég tel að hlutur hins talaða, samræðna og umræðna sem eru vitrænar, djúpar og gefandi, sé of rýr í menntakerfinu, líkt og fram gengur af því sem ég hef ritað hér undanfarið. Ég hef þó alltaf líka verið mikill áhugamaður um tölvur og tækninýjungar í skólastarfi - og má lesa einhverjar pælingar um slíkt í eldri pistlum. Og á báðum þessum sviðum, og öllum öðrum, tel ég að kennari verða að stunda það sem hann boðar, og helst að skólar í starfi sínu og framgangi sýni að þeir séu vettvangur þeirra gilda og starfsaðferða sem þeir vilja standa fyrir. Þannig verður skóli að vera staður þar sem stöðugt á sér stað lifandi og gagnrýnin umræða og að allir verði þess varir að svo sé. Skóli sem vill vera framarlega varðandi tæknimál verður líka að vera staður þar sem nýjungum í tækni er beitt og andi áhuga og spennu fyrir þeim ríkir. Kennarar í slíkum skóla eru áhugasamir netverjar, blogga og eiga sér tilvist og stöðu í félagsmiðlum og líður vel í slíku umhverfi. Skólinn á líka að hasla sér völl á þessu sviði, miðla fréttum og upplýsingum með sem ferskustum og fjölbreyttustum hætti; þeim hætti sem passar best fyrir meirihluta þeirra sem í honum er, þeas. nemendurna.

Tuesday, February 14, 2012

Að beita lærdómnum

Já, ég hef aldrei getað farið jafn þráðbeint í að nýta eitthvað sem ég hef lært og núna, en ég tók alla tímana í gær í umræður, svona meira eða minn alá Brenifier - og var vel þreyttur í dagslok. Niðurstaða mín er sú að einfaldar reglur, e-ð sem kalla mætti handverkið, svínvirkar og ég hef sjaldan náð eins miklum árangri í að halda umræðum á ensku í enskutímunum. Önnur niðurstaða er að þetta virkar mismunandi í mismunandi hópum, en hins vegar er hægt að stilla dýptarstigið og ná árangri á hvorn vegin sem er. Það sem Brenifier kallar 'work with attitudes' virkar mjög vel sem agastjórnunartæki.

Í heimspekinni var þetta mikil áskorun og voru menn orðnir nokkuð þreyttir í lok dags. Ég held að einbeitingastigið hafi verið hærra en oft áður, en nokkuð fór að bera á óþolinmæði þegar leið á samræðuna. Ég prófaði aðferð þar sem hann kallar 'think the unthinkable'. Það er hins vegar klárt mál að það er eitt þegar markmiðið er að fara út og suður, en tala nokkuð skipulega, eða ef maður vill fara inn í að greina hugtök og taka þannig aðferðina alla leið. Ég finn þó að ég hef sótt í mig veðrið varðandi ákveðni og öryggi, og eins líka að halda sjálfum mér til hlés, eða öllu heldur stilla þátttöku mína skv. því sem við á.

Svona umræður eru mögulegar í venjulegri stofuuppröðun, en það er mun æskilegra að sitja í hring / U. Bekkjarstærðin er vandamál, en ef maður er snarpur og skiptir stundum yfir í 1-pair-share o.s.frv. getur það virkað vel. Ég held reyndar að besta leiðin til að þjálfa sig í tungumáli sem maður er kominn nokkuð áleiðis með (eins og enska í framhaldsskóla) og besta leiðin til að skerpa heimspekilega hugsun sína, sé sú sama, en það er leið hinnar stýrðu en um leið frjálsu samræðu.

Thursday, February 9, 2012

Lærdómur úr semínari í heimspekipraktík

Nú er að síga á seinni hlutann og þetta hefur verið afar merkilegt.

Lykilatriðið fyrir mér er pælingin í að vinna með afstöðu þátttakenda og að fylgjast með hversu erfitt það er fyrir marga að gefa eftir og fylgja reglum leiksins. Stjórnandinn er virkur og krefjandi, en ekki ósanngjarn. Lykil vandinn hjá mér í stjórnuninni var að ég missti einbeitingu og steypti mér inn í umræðuna efnislega, nokkuð sem ég hefði ekki átt að gera. Samt er það ekki vafamál að það gerði dvölina lærdómsríkari að steypa sér svona í laugina. Ég er líka ekki í nokkrum vafa um að ég kem aftur.

Ég mun taka upp töluvert af hugmyndunum beint í heimspekikennslunni en líka almennt í kennslu og færi mig þannig yfir í að vera með sterkari nærveru í stofunni, ég held ég hafi töluvert sterka nærveru, en stefni í að vera sterkari. Með því að nota líka meiri og virkari samtalsaðferðir í þessum dúr, og þá í enskunni án þess að gera kröfur um heimspekilega nærveru verður það auðveldara, en við sjáum til. Ég held að það vanti oft ákveðna festu í kennsluna hjá mér og ætla að vinna í því. Ég held að festan verði ekki á kostnað fjölbreytninnar eða skemmtilegheita, eiginlega þvert á móti.

Ég kem líka út úr þessari vinnu með skýrari hugmynd um heimspekina og hvað hún fjallar um. Þannig er rökleg vinna með hugtök heimspeki, og þá einkum þannig að hópur í samræðu vinni saman að slíkri vinnu. Annað sem talar mjög sterkt til mín er sú áhugaverða tenging austrænna grunnviðhorfa og vestrænna hugtaka og höfunda sem maður kynnist hérna. Grundvallaratriðið þar er hvernig súbjektið, sjálfið, þrár þess og tilfinningar er yfirgefið og hópurinn fer að hugsa. Ég þarf reyndar að huga miklu betur að og gagnrýna skarpa aðgreiningu Brenifier á tilfinningum og skynsemi, en get þó ekki sagt annað en reynsla úr samræðunum sannar að sú nálgun virkar í reynd og að þegar það virkar þá er eins og ákveðnum skýjum létti og skýrleikinn kemur í staðinn.

Svo verður maður bara að æfa sig og æfa og æfa og smám saman fer þetta að verða manni eðlilegar, og ég þróa minn eigin stíl. Eitt í því að það er mikill munur á því að vera kennari og að vera moderator í samræðu, en kennari þarf að geta fært sig á milli þessara hlutverka og það er áskoruninn sem blasir við mér í starfi.

Wednesday, February 8, 2012

Fyrir vinnustofu

Jæja, aðeins meira, nokkur prinsipp Oscars:
-heimspekileg samræða er ekki tilfinningaleg
-einlægni kemur í veg fyrir hugsun (góð lygi er betri)
-þegar samræðan leitar í átt að einum öfgum þá togar stjórnandinn hana í aðra (t.d. frá huglægni í hlutlægni)
-stjórnandinn er mjög virkur
-einn talar í einu og beinir svo máli sínu til annarra skv. fyrirmælum stjórnenda
-það sem maður getur ekki sagt skýrt, með einu orði eða setningu er óskýr hugsun
-í samræðunni reynum við að losna frá egóinu og hættum að vera með óþarfa tillitsemi eða áhyggjur af því að særa aðra o.s.frv.
-svona samræður ganga betur með börnum en fullorðnum

Ég tek núna stjórnina og reyni að vera ég sjálfur þó óhjákvæmilega vinni ég með e-ð sem ég fæ frá Oscari. Það verður mjög áhugavert að sjá hvernig fólk tekur þessu og hversu 'heimspekilegur' ég verð metinn....

Tuesday, February 7, 2012

Brenifier og samræðan

Ég er semsá á ótrúlegu semínari heimspekilegrar samræðu undir handleiðslu Oscar Brenifier og konu hans Isabelle Millon. Öll umgjörðin, hópurinn og framkvæmdin er afskaplega athyglisverð, óvenjuleg og heillandi. Í dag prófaði fólk að koma með workshops og þáði gagnrýni hópsins og meistarans. Ég er að endurnýja mig sem kennari og sé að ákveðin tegund af skerpu í nálgun sýnir þátttakendum meiri virðingu en endalaus eftirgjöf. Ég verð með workshop í fyrramálið.... omg.....

Ekki langt menntablogg, en, verður að duga í bili....

Sunday, February 5, 2012

Menntun sem reynsla

Ég er nú enginn sérfræðíngur, og eiginlega afskaplega langt frá því, með þeas Dewey kallinn, en hann var upptekinn af reynsluhugtakinu og lýðræði. Ég er það líka, þó ég hafi ekki náð að setja mig djúpt inn í hans sýn. Ég vil byggja aðeins áfram á umræðunum um samræður og umræður og leggja til. að til þess að einhver merkingarbær reynsla fari fram þurfi að vera e.k. krækja sem dregur inn þátttakendur, nemendur og kennara .... þetta verður þá að vera e.k. áskorun, spenna, eitthvað tilfinningalegt. Annað sem ég held að þurfi er fjölbreytni ...

Því miður vantar held ég dáldið upp á áskoranir, spennu, tilfinningar og fjölbreytni í skólum, þó margt sé frábært í gangi. Ég held að heimspekileg samræða og meiri leikur af ýmsu tagi sé byrjun á því að færa þetta í betra horf....

...er núna staddur á námskeiði í Frans um heimspekilega samræðu, við skulum sjá hvað kemur út úr því....

Sunday, January 29, 2012

Meira um samræðupælingar

 Þetta er nú svona óbeint framhald af síðasta pósti. Ég er mikið að pæla í þessari greiningu í strúktúrerað og óstrúktúreraða umræðu sem ég nefndi síðast. Ég held kannski líka að maður hreyfi sig á milli þessara aðferða. Önnur mikilvæg pæling er hversu mikið stjórnandinn blandar sér í umræðurnar. Ég hef verið gagnrýndur fyrir að blanda mér frekar mikið. Ég átta mig á að þetta á ekki alltaf við en samt.... ég lít líka á það þannig að stjórnandinn, kennarinn, nýti samræður til að opna fyrir fræðslumóment - ef eitthvað kemur upp um einhver fræðileg mál þá eigi að grípa þann möguleika til uppfræðslu (án þess að verða leiðinlegur, en fróðleiksmolar öðlast merkingu og tengingu ef þetta er gert vel). Annað atriði sem er áhugavert er að ef einhver þátttakenda segir eitthvað mjög dramatískt og sérkennilegt, sem kannski passar ekki við strúktúrinn. Í slíku tilfelli verður annað hvort að fara inn í það mál af alvöru og kryfja það, eða kasta því út og segja að þetta verði að taka við annað tækifæri o.s.frv. Þar sem þetta gerist kannski ekki oft er það freistandi að grípa svona á lofti, en það kann að vera slæm ákvörðun engu að síður.... Síðasta atriðið sem ég ætla að pæla í núna er erfiðleikastig samræðna. Það er mikilvægt að vera ekki of feiminn við það að fara á djúpið en þá þarf stjórnandinn að velja sér stað þar sem hann stoppar og spyr hvort fólk skilji. Þannig væri málið kannski að stoppa og benda bara á einhvern og spyrja hvort viðkomandi fatti hvað er í gangi. Ef ekki þarf þá að spóla til baka og hægt að gera það með ýmsum hætti. Hins vegar er það líka mikilvægt að samræðan geti dvalið í óþægindunum, og það er gott að leyfa smá dramatík og átökum að hanga í loftinu, en eins og í góðum harmleik þarf náttúrulega helst að leiða allt til lykta í sátt sem flestra.... (sbr. Aristóteles.... ) ....

Wednesday, January 25, 2012

Einlægni, áhugi og hæfileikar

Átti mjög athyglisverða umræðusessjón um einlægni, tilgerð og hvenær umræða um tiltekin mál hættir að vera rökræn og færist yfir á tilfinningasviðið. Ein pæling sem kom fram var að ef maður væri ekki einlægur þá væri maður tilgerðarlegur, og þá var pælingin að ef maður væri ekki einlægur þá væri maður tilgerðarlegur. Ég held samt ekki, en ég er ekki viss.... Mín pæling er sú að maður geti verið einlægur þó maður fari ekki á dýptinni og gangi ekki alla leið í tjáningunni - og þá lítur maður kannski á umræðuna sem e.k. leik.

Önnur umræða, sem er líka áhugaverð er hvort maður geti verið rosalega góður í einhverju en jafnframt fundist það alveg drepleiðinlegt. Ég er efins, en fékk samt nokkur dæmi sem ollu mér heilabrotum.....

Mikilvæg pæling í sambandi við kennslu og samræður er svo munurinn á opinni og flæðandi umræðu vs. strúktúreraðri og reglubundinni umræðu. Ég hygg að oft sé það þannig að með reglum og strúktúr náist oft meiri virkni og almennari þátttaka þó að það kunni að hljóma mótsagnakennt....

Wednesday, January 18, 2012

Rökvillur, hugsanavillur og félagssálfræði

Í meðferð á kaflanum Rök þá bjó ég til spurningar, eina á miða fyrir hvern nemanda, en ég var með sett af fjórum spurningum. Svo var hver nemandi með eitt orð úr setningu og þegar búið var að leysa úr spurningunni var að finna þá sem orðið sem maður var með passaði við... T.d. ef maður var með 'Ég hugsa' - þá var maður í hóp sem myndaði saman setninguna 'Ég hugsa þess vegna er ég' - tilvitnanirnar var svo hægt að ræða og rúlla yfir spurningarnar ... nokkuð skemmtileg aðferð sem er alls ekki frumlega en nýta má á ýmsan hátt.... svona létt leikvæðing og líka að koma fróðleik að í mekanisma eins og hópaskiptingu....

Kaflinn um Rök endar á pælingum um rökvillur og telur þær upp.... ég er ekki alveg fullsáttur með þann hluta, finnst þessi rökvilluupptalning svoldið klisjukennd. Ég bætti því við smá pælingum úr Rannsóknarskýrslu Alþingis og hugsanavillur sem eru leiddir úr rannsóknum félagssálfræði .... markmiðadrifin hugsun, hjarðhugsun, hóphugsun - og set það allt í samhengi við hrunið og pælingar um það. Það er áhugavert að nálgast þau mál án þess að vísa til e.k. sviksemi eða siðleysis; taka það á vitrænum nótum - varaði þau reyndar við að ég væri hrunnörd og mun brúka þetta mikið til að taka dæmi.... Ég nota í svona yfirferð e.k. bara gamaldags beina kennslu með miklum spurningum og þátttöku nemenda - er almennt á þeirri skoðun að best sé að blanda stílum og leyfa efninu stundum að vera í forgrunni.... setti þeim svo fyrir að kíkja á Nassim Taleb á Facebook, en hann er besti Facebook heimspekingurinn sem ég hef orðið var við so far....

Sunday, January 15, 2012

Lýðræði í skólastarfi og leikvæðing

Hef nú hafið fyrsta kafla með því að leyfa nemendum að velja kafla til meðferðar, niðurstaðan var kaflar um Rök, Þekkingu, Speki (lífsspeki, stóuspeki o.fl.), Rétt (réttarheimspeki) og Veg (austræn heimspeki). Ég hálf þvingaði inn Rök (stýrt val). Annars skipti ég þeim í hópa, hópar komum með tillögur, og það var ótrúlega mikil samfella milli hópa. Kaflinn Breytni (siðfræði) varð útundan, sem er áhugavert, en búdda og taó fengu að fljóta með sem er mér mikið ánægjuefni.

Það er vitaskuld spurning hversu mikið lýðræði þetta er, enda byggir val þeirra ekki á því að hafa lesið bókina. En ég tel þó að þetta gefi ákveðna tilfinningu fyrir deildu eignarhaldi á náminu, gæti allavega mögulega verið skref í þá áttina. Umræður hafa a.m.k. verið nokkuð góðar og ágæt virkni, þó það sé reyndar áberandi að ákveðnir aðilar hafa sig talsvert meira í frammi en aðrir.

Á morgun ætla ég svo að prófa smá Gamification, lítið verkefni þar sem þau svara spurningum og leysa svo ákveðna gátu til að finna hóp sem þau eiga að vera í .... meira um það  næst. Ég er reyndar að spá í að leikvæða enskukennsluna mun meira, enda góða leið til að komast inn í og í gegnum efni sem er misspennandi svona on the face of it....

Saturday, January 7, 2012

Fyrsti í heimspeki

Jæja, þá er Hei103 komið í gang og ég var ánægður með stóran og vel pælandi hóp, að öll leyti nema því að þar eru bara tvær stelpur, hvað er í gangi með það? Ég verð að auglýsa eftir pælingum um þetta mál því það veldur mér miklum heilabrotum.

Í enskutímum er ég að hita upp fyrir að þau undirbúa að flytja kynningar og ræður og prófaði að láta einn bekkinn flytja bullræður. Ég bað þau að auki að sýna ákveðna tilfinningu þegar þau töluðu og þau voru ótrúlega slöpp í því. Ég ætla því að prófa mig áfram með einhver leiklistartrix hugsa ég í þessu sambandi.

Er svo enn að pæla í þessu með kennsluna og listina, ég var að byrja með dagbókina og fattaði þá hvað ég er að bauka í mörgu .... ég er sennilega háður því að vera stöðugt með einhverja tilraunamennsku í starfinu.....

Tuesday, January 3, 2012

Eru kennarar listamenn? Mun mér takast að starfendarannsaka mig?

Ég var að byrja að undirbúa mig í gær fyrir önnina og lýst nú bara vel á. Ég ætla mér að setja aftur líf í að reyna að beita starfendarannsóknum í starfi mínu og þá er stóra glíman fyrir mig að reyna að halda dagbók. Einn möguleiki / hluti nálgunarinnar gæti verið.... og verður .... að blogga - en það er sumt sem kannski passar ekki í blogg... Hluti undirbúningsins í gær var að gera áætlun í Hei103, þar ætla ég að prófa að beita lýðræðislegum aðferðum að hluta og leyfa nemendum að velja kaflana úr bókinni sem við tökum fyrir - svona bundið lýðræði, en ætti að vera ágætt líka til að kveikja áhuga og umræður, ég leyfi ykkur að fylgjast með :-)

Hef svo verið rosa mikið að pæla í samlíkingu kennara og listamanna. Ég held að oft sé litið þannig á að kennarinn sé performer og nemendur áhorfendur. Ég held því fremur fram að nemendur séu fremur hluti af efnivið kennarans og verkið sé heildin sem kannski á sér ekki beint neinn áhorfenda, nema að það sé tekið til sérstakrar rannsóknar. Þessar pælingar og svo almennt þetta AR brölt á (vonandi) eftir að rúlla inní mastersverkefnið mitt sem ég er að fara að djöflast af stað með.... svo finnst mér líka gaman að pæla í því að sumir kennarar séu svona avant garde listamenn, sumir meiri djassarar eða jafnvel pönkarar o.s.frv. Ég held að kennarar eigi það líka sameiginlegt með listamönnum að vera í starfinu að verulegu leyti af ástríðu en ekki fyrir laun eða virðingu auðsýnda stéttinni....

Væri gaman að hafa smá samræðu um þetta á einhverjum vettvangi. Ég er líka svoldið upptekinn af því að bæði varðandi kennslu og listir þá er ákveðin mýstík um meðfædda og ókennanlega hæfileika sem ég hef ákveðin áhuga fyrir að hrista upp í, þó ekki sé náttúrulega hægt að afsanna þá. Ég velti líka fyrir mér hvort þessi samlíking ætti að hafa áhrif á menntun kennara, færa hann nær kennslu í listgreinum og handverki og lengra frá bóklegum og fræðilegum nálgunum.... svona bara pæling.

Segi annars gleðilegt ár og ég vil endilega fara að fá fleiri menntabloggara í gang!